Ársverðbólgan stendur óbreytt í 4,8% í desember en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% í desember. Mælingin er í takt við spár flestra greiningaraðila. Árstíðabundin hækkun flugfargjalda og reiknuð húsaleiga vógu þyngst í mánuðinum.
Íslandsbanki á von á því að ársverðbólga breytist ekki í janúar en hjaðni nokkuð hratt í febrúar og mars. „Ef spáin gengur eftir mun ársverðbólga vera komin inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í mars. Þegar líður á næsta ár eigum við von á því að ársverðbólga verði komin nokkuð nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
Í uppfærðri bráðabrigðaspá bankans er gert ráð fyrir að ársverðbólgan verði komin niður í 3,6% í mars á næsta ári.
„Til þess að spá okkar gangi eftir þarf launaskrið að vera takmarkað og gengi krónu stöðugt. Helsta óvissan um þessar mundir snýr að gerð kjarasamninga fyrir hluta opinberra starfsmanna. Þar að auki er óvissa á pólitíska sviðinu sem og í alþjóðamálum en miklar vendingar í þeim efnum kunna að breyta myndinni töluvert,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
Þá segir að ný könnun Gallup á verðbólguvæntingum ætti að reynast peningastefnunefnd gott veganesti fram að vaxtaákvörðun í febrúar. Könnunin, sem framkvæmd var í nóvember, gaf til kynna lækkandi verðbólguvæntingar fyrirtækja og heimila til skemmri og lengri tíma.
„Peningastefnunefnd horfir gjarnan stíft á þennan mælikvarða og því góðar líkur á vaxtalækkun í febrúar að okkar mati,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
Í greiningu Kviku segir að áfram hægi á hjöðnun undirliggjandi verðbólgunnar. Árstaktur Kjarnavísitölu 4, sem mælir verðbólguna án ýmissa sveiflukenndra liða, opinberra gjalda og reiknaðrar húsaleigu var óbreyttur í 3,2% og hefur ekki haggast síðan í september, en vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði úr 2,7% í 2,8% frá fyrri mánuði. Þá kemur fram að árstaktur innlends markaðsverðs án flugfargjalda lækkaði úr 4,6% í 4,5% eftir að leiðrétt hafi verið fyrir einskiptisáhrifum skólamáltíða í september.
„Það er að okkar mati til marks um að vaxandi hluti verðbólgunnar sé vegna tregustu liða vísitölunnar, sem torveldað geta „síðustu míluna“ í átt að markmiði,“ segir í greiningu Kviku.
Kvika telur allar líkur á að vaxtalækkunarferlið haldi áfram á fundi nefndarinnar 5. febrúar næstkomandi.
„Okkur reiknast til að miðað við lækkun verðbólguvæntinga sé líklegt að fjölþáttamat Seðlabankans á raunstýrivöxtum verði komið aftur í 4,4% í aðdraganda febrúarfundar nefndarinnar, en það er jafnhátt raunvaxtamat og við síðustu vaxtaákvörðun, þegar nefndin afréð að lækka vexti um 50 punkta. Okkur þykja líkurnar á öðru stóru skrefi strax í febrúar því hafa aukist nokkuð,“ segir í greiningu Kviku.