Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segist í samtali við Morgunblaðið binda vonir við að ný ríkisstjórn leggi ekki auknar álögur á greinina.
„Ef ný ríkisstjórn hækkar virðisaukaskatt á greinina mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppnisstöðu. En almennt eru horfurnar ágætar, staðan er þó sú að við erum að tapa samkeppnishæfni gagnvart samkeppnislöndum okkar og ef það heldur áfram næstu ár er það alvarleg þróun,“ segir Jóhannes.
Reglulega sprettur upp umræða um mikilvægi þess að laða hingað til landsins betur borgandi ferðamenn.
„Beinni neytendamarkaðssetningu hefur ekki verið haldið úti síðan árið 2022. Samsetning ferðamanna hefur verið svipuð frá því eftir faraldurinn en líkt og þekkt er þá breyttist hún í faraldrinum. Ef við viljum laða hingað til lands verðmætari ferðamenn verðum við að sækja fram í markaðssetningu,“ segir Jóhannes.
Greinin birtist í heild sinni í Morgunblaðinu í morgun.