Bendedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að sífellt sé verið að skoða leiðir til að reka bankann með skilvirkari hætti.
Þetta segir Benedikt í viðtali í viðskiptahluta Dagmála, spurður hvort það hafi komið til skoðunar að sameina Arion banka og Kviku banka, en fjallað var um þann orðróm í viðskiptamiðlum fyrir nokkru.
Benedikt segir að rekstur fjármálafyrirtækja verði sífellt flóknari.
„Við erum að reka minnstu kerfislæga mikilvægu banka í Evrópu. Það er eitt og sér áskorun að reka fyrirtæki í litla hagkerfinu okkar með okkar gjaldmiðil þannig að ég held að það ætti alltaf að vera til skoðunar hvaða tækifæri eru í því að gera bankarekstur skilvirkari til hagsbóta fyrir neytendur,“ segir hann og bætir við að ýmsar skorður séu til staðar út frá samkeppnislegu sjónarmiði sem eru í vegi fyrir frekari samþættingu á fjármálamarkaði.
Spurður hvaða tækifæri hann sjái í frekari samþættingu segir Benedikt að tækifæri felist einkum í að skapa öflugri einingar.
„Það eru tækifæri í að skapa öflugri einingar þar sem fjármálastöðugleiki og rekstraröryggi er meira. Nýjasta áskorunin í rekstri fjármálafyrirtækja eru netógnir og svikastarfsemi. Við þurfum því að hafa öflugar einingar. Ég held að ef við ætlum að gera okkur gildandi á norðurslóðum þá verðum við að vera með öflug fjármálafyrirtæki,“ segir Benedikt.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: