Höldum lýðnum uppteknum

Stöllurnar sameinaðar í ríkisstjórninni, Þorgerður Katrín, Kristrún og Inga.
Stöllurnar sameinaðar í ríkisstjórninni, Þorgerður Katrín, Kristrún og Inga. Morgunblaðið/Eggert

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Að sögn leiðtoga nýrrar ríkisstjórnar er eitt af forgangsverkefnum hennar að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Það er komið að ríkisfyrirtækjunum og ríkinu sjálfu hefur Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagt. Reyndar orð í tíma töluð og vonandi að hún sé heil í þeirri vegferð en láti ekki afvegleiða sig. Freistingarnar eru margar og stígurinn grýttur.

Nú hefur ríkisstjórnin gengið lengra í þessu markmiði sínu og leitar samstarfs við þjóðina um verkefnið. Inn í samráðsgátt stjórnvalda keppist almenningur við að hlýða leiðtogum sínum og koma með tillögur að hagræðingu í rekstri ríkisins. Margt áhugavert en sumt alveg stórundarlegt.

Ein helsta hagræðing fyrir þessa ríkisstjórn er einfaldlega að fækka ríkisstarfsmönnum og stoppa augljós verkefni sem enginn fótur er fyrir. Skera niður þar sem ríkið og starfsmenn þess finna fyrir því en ekki almenningur. Það er þetta að þora að stoppa verkefni, þora að vera óvinsæll. Þorir Kristrún því?

Hætta þarf að leita að fjármunum í vasa almennings með aukinni skattheimtu til að eyða innan ríkisins. Miðað við sum stefnumál leiðtoganna er kannski ágætt að sjá hversu auðveldlega þær stöllur þrjár, sem eru í forsvari ríkisstjórnarinnar, gáfu eftir nánast öll kosningamál sín fyrir ríkisstjórnarstólana. Það er auðvitað sorglegt að sjá hvað eigin hagur fellir mörg hugsjónamál stjórnmálamanna.

Það þarf að einbeita sér að því að ná niður vöxtum með því að skila betra ríkisbúi og liðka fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis. Hætta að þverskallast í kerfisuppbyggingu, inngildingu og vottun sem skilar engu nema verkefnum fyrir ríkisstarfsmenn og auknum kostnaði fyrir samfélagið.

Í ljósi sögunnar er líka ágætt að maður eins og Dagur B. Eggertsson virðist nú vera múlbundinn við stólinn hjá Kristrúnu. Spurning hvort hann nái að naga sig lausan.

Raunveruleg ástæða Kristrúnar fyrir þessu samráðsverkefni er hins vegar byggð á mannlegri sálfræði. Að hluta rakið til Rómverjanna sem kepptust við að hafa þjóðarleika, helst í hverjum mánuði, þar sem lífið var murkað úr mönnum og dýrum til skemmtunar fyrir lýðinn. Keisarinn greiddi fyrir leikana enda snerust þeir helst um að halda lýðnum uppteknum en ekki með hugann við hversu illa ríkið væri raunverulega rekið og hagur lýðsins slæmur. Eyðið endilega tíma í að koma með hugmyndir að hagræðingu í samráðsgátt, ég skoða það kannski. Líklegast samt ekki.

Hér var kosið nýtt alþingi með ákveðin fyrirheit. Er þá ekki réttast að nýir starfsmenn þjóðarinnar gangi í verkin sjálfir í stað þess að eyða tíma í að fá almenning til að rifja upp og benda þeim á augljósar staðreyndir og verkefni þar sem hægt er að hagræða?

Hættið einfaldlega að eyða um efni fram, fjármuni ríkisins á ekki að nota til að auka hagsæld eða vinsældir stjórnmálamannanna sjálfra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK