Með vexti í útgáfu tónlistar á streymisveitum er nú heilmikið magn af tónlist sem aldrei sést í plötubúðum. „Í sumum geirum tónlistar hefur færst í vöxt að gefa aðeins út á streymi. Í gamla daga endaði allt sem kom út í plötubúðum,“ segir Lárus Jóhannesson, eigandi plötubúðarinnar 12 tóna við Skólavörðustíg, í samtali við Morgunblaðið.
Í búðinni eru vínilplötur söluhæstar en einnig er seld tónlist á geisladiskum og segulbandsspólum, eða kassettum eins og þær eru stundum kallaðar.
Lárus segir að útgáfa tónlistar á geisladiskum hafi minnkað. „Það eru margir sem gefa út í streymi og á vínil, en sleppa geisladiskinum.“
Lárus segir að enn sé markaður fyrir geisladiskinn þó að hann hafi aðeins orðið út undan síðustu ár. „Það er ennþá til fólk sem kaupir geisladiska og hefur haldið tryggð við það snið, sem er að mörgu leyti ágætt. Líklega er það hljómurinn sem fólk leitar eftir. Svo er aðeins minna vesen að handleika diskinn en vínilplötuna. Upphaflega átti diskurinn að taka við af vínilnum, enda er hann bæði einfaldari og ódýrari í framleiðslu.“
Lárus segir að það sé að mörgu leyti synd hvað geisladiskurinn hefur gefið mikið eftir.
Spurður nánar um markhópinn fyrir geisladiska nefnir Lárus erlenda ferðamenn sem finnist auðveldara að flytja hann milli landa en vínilplötur. „Geisladiskurinn hefur líka haldið velli í sígildri tónlist og í ákveðinni tegund af djassi. Það er gríðarlega mikið gefið út af geisladiskum í þessum geirum. Það er eiginlega enn normið þarna að gefa út á þessu sniði. Þumalputtareglan í sígildri tónlist er að gefa út á geisladisk og koma svo með veglega vínilútgáfu.“
Spurður um kassettuna segir Lárus að hún sé ekki jafn steindauð og margir gætu haldið. „Það er ákveðinn hópur sem sækir í hana, en hann er ekki stór. Allar kassettur sem koma inn í búðina seljast. Fyrir nokkrum árum fékk ég hundruð kassetta með upptökum úr útvarpinu frá manni sem hafði dundað sér við að taka upp úr Ríkisútvarpinu í áratugi. Þetta var stórmerkilegt safn. Ég setti þetta fram í búð og seldi á 10 kr. stykkið. Þetta seldist grimmt og minnti á engisprettufaraldur. Kassetturnar kláruðust á mettíma. Ég leit á þetta eins og fleira sem selt er hér í búðinni, ég vildi koma þessu á réttan stað.“
Lárus segir að tónlistarmenn gefi sumir verk sín enn út á kassettum. „Þú getur til dæmis fengið allar plötur Bjarkar Guðmundsdóttur á kassettu.“
Spurður um nýafstaðna jólasölu segir Lárus að hún hafi verið ögn meiri nú en jólin 2023. Vinsælt sé að setja vínilplötu í jólapakkann. „Margir þeirra sem eru að eignast plötuspilara núna á síðari árum vilja eignast sígildar plötur æsku sinnar. Við seljum til dæmis mikið af Rumours með Fleetwood Mac, A Night at the Opera með Queen og Dark Side of the Moon með Pink Floyd.“
Einnig selst mikið af sígildum djassi á vínil. „Það er líkt og það passi ótrúlega vel saman, vínill og sígildur djass. Það er eins og að borða ljúffengan baccalá með Rioja-víni,“ segir Lárus að lokum og brosir.