Anna Rós Ívarsdóttir, sem gegnt hefur um árabil stöðu framkvæmdastjóra mannauðs og menningar hjá VÍS, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra mannauðs hjá Skaga móðurfélagi VÍS. Hún mun einnig taka sæti í framkvæmdastjórn Skaga.
Fram kemur í fréttatilkynningu Skaga að með því að starfrækja mannauðssvið í móðurfélaginu náist fram hagræðing og samræming í rekstri samstæðunnar ásamt að styðja við þróun fyrirtækjamenningar.
„Nú um áramótin náðum við stórum áfanga þegar tilfærsla tryggingarekstrar í dótturfélagið VÍS tryggingar hf. raungerðist. Samhliða því höfum við einnig ráðist í skipulagsbreytingar sem miða að því að bæta þjónustu og auka rekstrarhagræði innan samstæðunnar. Það er mjög ánægjulegt að fá Önnu Rós til liðs við okkur í framkvæmdastjórn Skaga. Anna Rós hefur áralanga reynslu af mannauðsmálum, sem hafa verið mikilvægur þáttur í starfsemi VÍS á liðnum árum. Það er sérstaklega ánægjulegt að öll félög innan samstæðunnar njóti nú góðs af því framúrskarandi starfi sem mannauðsteymið hefur unnið hjá VÍS á liðnum árum, “ segir Haraldur I. Þórðarson forstjóri Skaga í tilkynningunni.