Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Tilkynnt var í vikunni að Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags, sem sérhæfir sig í útleigu atvinnuhúsnæðis og er skráð á hlutabréfamarkað, hefði hætt störfum. Hann hefur verið starfsmaður félagsins frá upphafi árið 2002.
Garðar Hannes segir sjálfur í tilkynningu að félagið hafi skilað hærri ávöxtun eiginfjár en meðaltal skráðra fasteignafélaga frá skráningu þess. Reyndar er það ánægja starfsfólks og sú gleði sem ríkir á vinnustaðnum sem hann er hvað stoltastur af.
Á sama tímapunkti er haft eftir Bjarna K. Þorvarðarsyni stjórnarformanni félagsins að það sé öllum félögum hollt að skoða endurnýjun á forystu þeirra með reglulegu millibili.
Þetta er nú kannski meira en skoðun á endurnýjun á forystu. Forstjóranum er skipt út, þrátt fyrir að félagið standi vel og uppbygging hafi tekist að beggja sögn.
Það sem væri öllum hollt er að skráð fyrirtæki á markaði segi raunverulega frá því hver ástæða þess er að forstjóra sé skipt út. Af hverju hættir Garðar Hannes? Hver er ástæðan, kom eitthvað upp á? Mögulega er fyrir þessu öll ofureinföld ástæða en það að stjórnarformaður félagsins kalli þetta eðlilega og holla breytingu segir ekkert fyrir fjárfesta. Það að forstjórinn fallni segi síðan að hann sé stoltastur af ánægju starfsfólksins og gleði þeirra hjálpar fjárfestum heldur ekkert, þótt auðvitað sé gott að vita til þess að fólki líði vel í vinnunni.
Þetta með að það sé hollt af skipta fólki út er atriði sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra ætti einnig að skoða aðeins betur. Sumt fólk á einfaldlega ekkert erindi í stjórnunarstöður. Dagur B. Eggertsson er réttilega kominn í sturtu en einn slíkra sem ekkert erindi eiga er Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður úr heimilisflokki Ingu Sæland, leiðtoga Flokks fólksins, sem sagt er að taki sæti sem leiðtogi fjárlaganefndar ríkisins.
Sami maður og hefur ítrekað hvatt fólk til að rísa upp gegn ríkisstjórn og embættismönnum, hefur rokið á dyr og á stóran þátt í því að vextir landsins eru í hæstu hæðum í gegnum kjarasamninga. Samkvæmt hans eigin heimasíðu er allt stjórnkerfið spillt og Seðlabanki hvað verstur: „spillingin er sjálfnærandi og hefur hreiðrað um sig alls staðar í stjórnsýslunni. Seðlabankinn er hollur þjónn sömu spillingar.“
Ef þetta er rétt þá hefði Kristrún forsætisráðherra átt að beita sér og vanda valið betur, enda efnahagsmál að hennar sögn forgangsatriði í nýrri ríkisstjórn. Þessi skipun sendir ekki þau skilaboð.