Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics (ATx) hefur tryggt sér A-fjármögnun (e. Series A) að virði 26,5 milljónir evra, sem samsvarar tæplega fjórum milljörðum íslenskra króna, í kjölfar töluverðrar umframeftirspurnar.
Bæði erlendir og innlendir fjárfestar tóku þátt í fjármögnuninni, þar á meðal EIC Fund, norræna rannsóknarsamstæðan Sanos Group, Kaldbakur, svissneska félagið Cerebrum DAO, bandaríski milljarðamæringurinn Jeffrey Lurie og hópur snemmfjárfesta og meðstofnenda líftæknifélaganna Kerecis og Chemometec, auk íslenskra einka- og fagfjárfesta.
Forstjóri Sanos Group, Jeppe Ragnar Andersen, tekur sæti í stjórn fyrirtækisins fyrir hönd nýrra hluthafa.
Fjármagnið verður fyrst og fremst nýtt til þess að hefja frekari klínískar rannsóknir á tveimur af fremstu lyfjum félagsins til meðferðar við heilabilun og húðbólgusjúkdómum.
Fjármagnið verður einnig nýtt til þess að framkvæma klínískar rannsóknir á AT-004 til meðferðar við húbólgusjúkdómum, svo sem húðbólum, ofnæmisexemi, rósroða og psoriasis.
Fyrirtækið stefnir að því að hefja fasa IIa-rannsókn í Evrópu á þessu ári, með það að markmiði að sýna fram á öryggi og virkni í meðhöndlun á húðbólum áður en rannsóknir verða útvíkkaðar til að sannreyna virkni í fleiri húðbólgusjúkdómum. Áætlað er að markaðurinn fyrir lyf til meðferðar við þessum sjúkdómum verði rúmlega 100 milljarðar bandaríkjadala árið 2030.
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance og lögfræðistofan BBA//Fjeldco veittu ATx aðstoð í fjármögnunarferlinu.