Marinó Örn Tryggvason, fyrrverandi forstjóri Kviku og stofnandi ARMA Advisory, er í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans þessa vikuna. Þar ræðir hann um ferilinn, fjármálamarkaði og fleira.
Spurður hvernig hann meti efnahagshorfurnar og hvort hann sé bjartsýnn á að vextir lækki hratt segist Marinó treysta því að peningastefnunefnd taki réttar ákvarðanir.
„Þetta er mögulega óvinsæl skoðun en mér finnst eins og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og hans fólk hafi tekið réttar ákvarðanir í erfiðum aðstæðum. Það hefur verið mikil óvissa og það er erfitt að vinna í óvissu. Það væri verulega kostnaðarsamt að lækka vexti of hratt og fá verðbólguna á flug aftur. Þetta er eins og að veiða lax, þú hálfrotar ekki lax og sleppir honum út í. Það þarf að ná tökum á verðbólgunni án þess að drepa hagkerfið. Auðvitað vill maður þó að vextir lækki sem hraðast og að stór skref verði tekin í þá átt,“ segir Marinó.
Spurður hvernig hann meti horfurnar á mörkuðum á árinu og hvort hann telji vera von á nýskráningum segir Marinó að hann sé sæmilega bjartsýnn.
„Vextir munu væntanlega halda áfram að lækka og maður finnur að það er meira fé að leita í fjárfestingar. Ég er bjartsýnn á horfurnar á árinu og næstu ár,“ segir Marinó og bætir við að það sé undir okkur sjálfum komið sem þjóð hvernig við höldum á spilunum.
„Við erum með ágætis spil á hendi. Við erum fá og búum í landi sem er ríkt af auðlindum. Það er líkt og við sem þjóð séum undir bananatré. Það er sama hvaða mistök við gerum, við fáum alltaf annan banana í hausinn. Það er heldur ekki gott. Við megum ekki taka okkar góðu stöðu sem sjálfsögðum hlut,“ segir Marinó að lokum.
Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.