Áætlun Landssamtaka lífeyrissjóða (LL) gerir ráð fyrir að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða bæði fyrir samtryggingu og séreign hafi verið jákvæð um 6,5% á síðasta ári. Áætlunin taki mið af vegnu meðaltali alls eignasafns íslenskra lífeyrissjóða en endanlegar ávöxtunartölur verða birtar þegar ársreikningar sjóðanna fyrir árið 2024 liggja fyrir.
Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri LL segir aðspurð í samtali við Morgunblaðið að ávöxtun lífeyrissjóða á síðasta ári hafi verið með besta móti í samanburði við tvö árin þar á undan.
„Þetta er góð ávöxtun og segja má að árið 2024 hafi verið mjög gott. Til að mynda var ávöxtun árið 2022 slæm og árið 2023 skilaði lágri ávöxtun en lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar svo að langatímaárangurinn skiptir mestu máli í þessu sambandi,“ segir Þórey. Hún segir þó að árangurinn hafi ekki komið á óvart.
„Þessi ávöxtun sjóðanna kom ekkert verulega á óvart, þar sem það lá fyrir undir lok ársins að árið myndi að öllum líkindum gefa vel af sér. Við höfum líka heyrt að þetta ár fari vel af stað,“ segir Þórey.
Hún segir að það verði að gæta sín á að fagna ekki of mikið góðri ávöxtun á einu ári, þar sem aðalatriðið sé langtímaárangurinn.
Þórey segir aðspurð að samkvæmt lögum séu skuldbindingar lífeyrissjóða gerðar upp miðað við 3,5% raunávöxtun.
„Þessi árangur er töluvert yfir því en það verður líka að horfa á að tíu ára meðaltalið hefur alltaf verið yfir þessum mörkum og er núna um 4%. Fimm ára meðaltalið er um 2,7% og vegur þar þungt liðlega 11% neikvæð ávöxtun árið 2022 sem má m.a. rekja til áhrifa covid-19,“ segir Þórey að lokum.