Stýrivextir norska seðlabankans haldast óbreyttir, 4,5 prósent, eftir ákvörðun þar um í morgun, en Ida Wolden Bache seðlabankastjóri boðar hins vegar lækkun þeirra í kjölfar ákvörðunar marsmánaðar. Þó kveður hún lækkun þá aðeins hugsanlegan möguleika.
Höfðu hagfræðingar spáð óbreyttum stýrivöxtum í dag í samtölum sínum við norska fjölmiðla enda seðlabankastjóri látið í veðri vaka í ávarpi sínu í desember, að fyrstu lækkunar ársins væri ekki að vænta fyrr en í mars.
Norska krónan hefur verið með veikasta móti um langa hríð auk þess sem brattar verðhækkanir hafa þyngt norskum neytendum, en seðlabankinn hefur um það bil tveggja prósenta árlega verðlagshækkun sem markmið. Nam hækkun undangenginna tólf mánaða 2,2 prósentum í desember.
„Mat peningastefnunefndar er að enn sé aðhalds þörf svo tryggja megi stöðugleika í verðlagi, en þess er þó ekki langt að bíða að lækkun stýrivaxta hefjist,“ segir í fréttatilkynningu sem bankinn sendi frá sér í morgun.