Samkvæmt frétt BBC hefur LinkedIn verið sakað um að nota einkaskilaboð notenda sinna til að þjálfa gervigreindarhugbúnað kerfisins og tengdra aðila.
Þetta kemur fram í stefnu gegn LinkedIn í Bandaríkjunum, en notandi þar hefur höfðað mál gegn félaginu og vísar í kerfisbreytingar sem ekki hafi verið kynntar notendum þar sem sjálfkrafa er heimilt að nýta einkagögn við þjálfun gervigreindarinnar. Félagið hafi því með þessu verið að blekkja notendur sína, enda ætti slíkt leyfi að þurfa að vera skýrt gefið.
Það er ljóst að aðgengi LinkedIn að gögnum er mikið því skráðir notendur eru yfir einn milljarður manna og fjórðungur þeirra í Bandaríkjunum.
Tölvurisinn Microsoft, sem er eigandi LinkedIn, hefur nýlega gefið út að fyrirtækið geri ráð fyrir að eyða um 80 milljörðum bandaríkjadala í þróun gervigreindar á árinu 2025.
mj@mbl.is