Finnbogi Rafn Jónsson framkvæmdastjóri viðskipta hjá Nasdaq Iceland kveðst vera bjartsýnn á árið á mörkuðum. Þetta segir hann í viðskiptahluta Dagmála.
„Við erum bjartsýn. Það er alltaf gott að vera bjartsýnn. Miðað við þróunina fyrir þetta ár þá munum við sjá fleiri fyrirtæki koma inn á markaðinn bara spurning hversu mörg,“ segir Finnbogi og bætir við að 3-5 ný fyrirtæki sé ekki endilega úr takti við það sem áður hafi sést sé horft á söguna.
„Við höfum séð markaðinn vaxa mikið á síðustu fimm árum. Ný fyrirtæki og nýjar atvinnugreinar hafa komið á markaðinn. Við erum bjartsýn á að það haldi áfram,“ segir Finnbogi.
Spurður hvort hann telji mikilvægt að fá inn fleiri atvinnugreinar og fjölbreyttari flóru fyrirtækja á markaðinn svarar Finnbogi því játandi.
„Það er fyrst og fremst mjög mikilvægt að sjá atvinnulífið á markaði. Það hafa fyrirtæki í ferðaþjónustunni lýst yfir áhuga á skráningu sem er jávætt. Því fjölbreyttari markaður því betri markaður,“ segir Finnbogi.