Félag viðskipta- og hagfræðinga hefur kosið Rannveigu Sigurðardóttir, fráfarandi varaseðlabankastjóra peningastefnu, heiðursfélaga FVH. Með kjörinu eru Rannveigu þökkuð hennar störf á sviði hagvísi í efnahagslífi Íslands en einnig fyrir einstakt framlag sitt til félagsins.
„Rannveig lauk nýlega störfum hjá Seðlabankanum eftir tæplega 25 ár í starfi. Við þetta tilefni fannst stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga við hæfi að heiðra þessa áhrifamiklu konu í íslensku efnahagslífi sem ávallt hefur gefið sér tíma til að styðja við félags- og fundarstörf FVH með þátttöku á viðburðum félagsins en óhætt er að fullyrða að hún sé sá viðmælandi sem hefur oftast tekið þátt í viðburðum félagsins síðastliðin ár.” segir Anna Margrét Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri FVH.
Rannveig Sigurðardóttir er hagfræðingur með umfangsmikla reynslu í efnahagsmálum og peningastefnu. Hjá Seðlabankanum gegndi hún ýmsum ábyrgðarstöðum, þar á meðal sem aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs og ritari peningastefnunefndar. Hún var einnig staðgengill aðalhagfræðings bankans.
Í júlí 2018 var Rannveig skipuð aðstoðarseðlabankastjóri til fimm ára. Við sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins 1. janúar 2020 varð hún varaseðlabankastjóri peningastefnu. Rannveig hefur setið í peningastefnunefnd frá stofnun hennar 2009 en næsta stýrivaxtaákvörðun nefndarinnar verður tekin þann 5. febrúar n.k.
Í störfum sínum fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans lagði Rannveig áherslu á að upplýsingar um áhrifavalda við vaxtaákvörðun nefndarinnar yrðu aðgengilegar og settar fram á skiljanlegan máta fyrir almenning m.a. í greinagóðum fundargerðum nefndarinnar og á blaðamannafundum í kjölfar vaxtaákvörðunar.