„Hægt að fara nýja leið í stjórnmálum“

Milei var að vanda kröftugur í ræðustól en virtist nokkuð …
Milei var að vanda kröftugur í ræðustól en virtist nokkuð fölur í Davos og vonandi að heilsan hjá okkar manni sé ekki farin að gefa sig. Það hefur mætt mikið á Milei undanfarin misseri og kannski ráð að bjóða honum í slökunarferð til Íslands í skiptum fyrir að senda nokkrar góðar niðurskurðartillögur í samráðsgátt stjórnvalda. AFP/Fabrice Coffrini

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Er nokkuð hætta á því að les­end­um fari að þykja of mikið fram­boð af Javier Milei á síðum ViðskiptaMogg­ans?

Það er jú ekki nema rösk­ur mánuður síðan viku­legi pist­ill­inn var helgaður arg­entínska for­set­an­um og hvernig niður­skurðar­verk­efnið mikla hef­ur gengið fyrsta ár Mileis í embætti.

Það verður ekki af Milei tekið að hann er lit­rík­ur stjórn­mála­maður en það sem ger­ir hann svo sér­stak­an er hve af­drátt­ar­laus og skýr hann er í tali sínu um al­gjöra yf­ir­burði frjáls­hyggj­unn­ar. Fólk hef­ur hrein­lega ekki heyrt þjóðarleiðtoga tala með þess­um hætti síðan Reag­an og Thatcher voru upp á sitt besta, og því kannski ekk­ert skrítið að þegar Milei hélt reiðilest­ur yfir gest­um á ráðstefnu Alþjóðlegu efna­hags­stofn­un­ar­inn­ar (WEF) í Dav­os árið 2024 hlaut ræða hans lang­mesta at­hygli af öll­um dag­skrárliðum. Þegar áhorfstöl­urn­ar á YouTu­be eru skoðaðar sést að marg­ar millj­ón­ir manna vildu heyra það sem Milei hafði að segja, og því varla skrítið að gest­gjaf­ar í Dav­os vildu ólm­ir fá Milei aft­ur upp á svið ár, til að segja sér til synd­anna. Það á við í Dav­os eins og alls staðar ann­ars staðar að smell­irn­ir skipta máli og verður ekki um það deilt að Javier Milei er orðinn stór­stjarna.

„El Loco“, eins og hann er stund­um upp­nefnd­ur, var bratt­ur þegar hann sneri til Dav­os í síðustu viku og gott ef viðtök­urn­ar voru ekki ögn hlý­legri í þetta skiptið og meiri kraft­ur í lófa­taki gesta nú en í fyrra.

Frelsið er í sókn

Ég fjallaði um aðal­atriði ræðunn­ar 2024 hér á síðum ViðskiptaMogg­ans en um var að ræða afar kröft­uga og sann­fær­andi málsvörn efna­hags­frels­is og kapí­tal­isma, og inn­takið hjá Milei að ríkið væri ekki lausn­in held­ur væri ríkið sjálft vanda­málið.

Í þetta skiptið ákvað Milei að tæta í sig vælu­menn­ingu vinst­ris­ins (e. wokeism) sem hann líkti við krabba­mein sem hef­ur náð að dreifa sér og skjóta rót­um í flest­um mik­il­væg­ustu stofn­un­um sam­fé­lags­ins; allt frá há­skól­um og fjöl­miðlum yfir í vold­ug­ar alþjóðastofn­an­ir. Vælu­menn­ing­in er ekk­ert grín, að mati Mileis, held­ur er hún þvert á móti smátt og smátt að eyðileggja stoðir vest­rænn­ar siðmenn­ing­ar.

Rétt eins og í ræðunni 2024 taka dæmi­gerðir ís­lensk­ir frjáls­hyggju­menn kannski ekki und­ir hvert ein­asta orð í ræðu Mileis í ár, en á mörg­um stöðum náði karl­inn góðu flugi og er ógalið að taka sam­an helstu punkt­ana fyr­ir les­end­ur:

Milei byrjaði á að rifja það upp að marg­ir hefðu furðað sig á ræðunni sem hann flutti síðast í Dav­os, en núna þegar ár er liðið sé litið á Arg­entínu sem gott for­dæmi sem aðrar þjóðir ættu að fylgja vildu þær taka rík­is­út­gjöld­in og verðbólg­una föst­um tök­um. „Við erum líka dæmi um að hægt er að fara nýja leið í stjórn­mál­um sem geng­ur út á það að segja fólki sann­leik­ann og treysta því að al­menn­ing­ur geti skilið hlut­ina.“

Bar­átt­an fyr­ir frels­inu geng­ur ágæt­lega og fer banda­mönn­um Mileis fjölg­andi. Smám sam­an er að taka á sig mynd óform­legt banda­lag þjóða og þjóðarleiðtoga sem hafa frjáls­hyggj­una að leiðarljósi: „Og smám sam­an hef­ur molnað úr ægi­valdi vinst­ris­ins og póli­tískr­ar rétt­hugs­un­ar í stjórn­mál­um: hjá mennta­stofn­un­um, í fjöl­miðlum, hjá alþjóðastofn­un­um, og meira að segja á sam­kom­um eins og ráðstefn­unni í Dav­os,“ sagði Milei. „En sig­ur­inn er ekki í höfn, og þó svo að búið sé að kveikja von í brjósti fólks þá höf­um við þá siðferðis­legu skyldu, og ber­um þá ábyrgð gagn­vart mann­kyns­sög­unni, að brjóta vælu­menn­ing­una á bak aft­ur og end­ur­reisa menn­ing­ar­arf okk­ar þar til ör­uggt er að meiri­hluti vest­rænna þjóða sé aft­ur kom­inn á sveif með frels­inu.“

Gild­in aðal­atriðið

Milei minnti á það í ræðu sinni að það skipti miklu máli hvaða gild­um er hampað og hvaða hug­ar­far er ríkj­andi hjá þjóðum. „Á heimsvísu hafði verðmæta­sköp­un á mann nærri því staðið í stað allt fram til árs­ins 1800 en þökk sé iðnbylt­ing­unni marg­faldaðist verðmæta­sköp­un tutt­ug­falt og lyfti 90% jarðarbúa upp úr sárri fá­tækt þó svo að mann­kyn­inu fjölgaði átt­falt. Þetta hefði ekki verið ger­legt nema vegna sam­verk­un­ar þeirra und­ir­stöðugilda að virða skuli eign­ar­rétt­inn, frelsið og rétt mann­eskj­unn­ar til lífs. Þessi gildi ruddu braut­ina fyr­ir frjálsa versl­un, tján­ing­ar­frelsi, trúfrelsi og aðrar stoðir vest­rænn­ar menn­ing­ar,“ sagði hann. „Í stuttu máli sagt þá fund­um við upp kapí­tal­ismann á grunni þess að leggja fyr­ir, fjár­festa, virkja fólk til starfa, og end­ur­fjárfesta ávinn­ing­inn. Við gerðum vinnu­afl tí­falt, hundraðfalt og jafn­vel þúsund­falt skil­virk­ara. […] En á ein­hverj­um tíma­punkti á 20. öld­inni villt­umst við af leið og sner­um baki við þeim frjáls­lyndu gild­um sem höfðu fært okk­ur hag­sæld og frelsi. Ný stjórn­mála­stétt, drif­in áfram af hug­mynda­fræði heild­ar­hyggju, gekk á lagið og sá að nú væri ráð að sópa að sér völd­um. Þeim verðmæt­um sem kapí­tal­ism­inn hafði skapað, og myndi skapa í framtíðinni, skyldi end­urút­hlutað eft­ir forskrift miðstýr­ing­ar. Þetta hleypti af stað at­b­urðarás sem við súp­um seyðið af í dag.“

Í ræðunni beindi Milei spjót­um sín­um sér­stak­lega að vælu­menn­ingu vinst­ris­ins, því að þar finnst hon­um vera að finna kjarn­ann í því sem frjáls­hyggju­menn þurfa að kljást við: „Þetta er sýn sem bygg­ist á þeirri for­sendu að það sé ekki nóg að all­ir séu jafn­ir fyr­ir lög­um, því að ein­hvers kon­ar falið en kerf­is­bundið mis­rétti sé fyr­ir hendi og þarfn­ist aðgerða. Þessi sýn hef­ur reynst sann­kölluð gull­náma fyr­ir emb­ætt­is­menn sem vilja auka völd sín eins mikið og hægt er,“ þrumaði Milei.

Karlp­ung­ar sem hata kon­ur og halda að jörðin sé flöt

Eins og Mileis er von og vísa kom hann víða við í er­indi sínu og gott ef ræðan hefði ekki verið betri ef hún hefði verið styttri og hnit­miðaðri, en það sýður á arg­entínska for­set­an­um og hann þarf að koma miklu frá sér.

Ræddi hann m.a. um hvernig rót­tæk­ur femín­ismi hef­ur bjagað jafn­rétt­is­hug­takið, og þeir sem leyfi sér að gagn­rýna mestu öfgarn­ar séu sakaðir um kven­hat­ur. Milei benti líka á hvernig vælu­menn­ing­in birt­ist í um­hverf­is­verndaröfg­um en fólk sem hreyfi mót­bár­um gæti vænst þess að vera dregið í dilka með þeim sem halda að jörðin sé flöt. Ekk­ert hef­ur held­ur mátt segja um mestu öfgarn­ar í trans-umræðunni ella eiga von á alls kyns árás­um og ásök­un­um um for­dóma og hat­ur. Og svona mætti lengi telja: allt hef­ur verið und­ir­lagt.

„Fyrsta vopnið sem vælu­menn­ing­in gríp­ur til er að reyna að gera þau okk­ar tor­tryggi­leg sem reyna að spyrna við fót­um; fyrst með því að klína á okk­ur skamm­ar­yrðum og síðan með því að þagga niður í okk­ur. Ef þú ert hvít­ur, þá hlýt­urðu að vera með kynþátta­for­dóma. Ef þú ert karl­maður, þá hlýt­urðu að vera kven­hat­ari og á sveif með feðraveld­inu. Ef þú ert efnaður, þá hlýt­urðu að vera vægðarlaus kapí­talisti. Ef þú ert gagn­kyn­hneigður hlýt­urðu að vera með for­dóma gegn sam­kyn­hneigðum og trans fólki.“

Áfram hélt Milei: „Öllum árás­um er svarað með því að stimpla fólk, og svo er reynt að þagga niður í gagn­rýn­is­rödd­un­um með valdi eða gegn­um dóm­stól­ana. Því að þrátt fyr­ir allt talið um fjöl­breytni, lýðræði og umb­urðarlyndi, þá leyn­ist und­ir yf­ir­borðinu sterk löng­un til að þurrka út hvers kyns and­óf, gagn­rýni og frelsi annarra.“

Vand­inn er ekki lít­ill og verður ekki auðveld­ur viður­eign­ar, en Milei full­yrðir að nú sé vind­átt­in að breyt­ast, og rétt eins og í Arg­entínu sé fólk um all­an heim að átta sig á að átakalín­an ligg­ur á milli þeirra sem standa vörð um frelsi borg­ar­anna og þeirra sem Milei kall­ar hina póli­tísku þjóðfé­lags­stétt sem vill halda hlut­un­um eins og þeir eru og helst ganga enn lengra. „Sem bet­ur fer sjá­um við það ger­ast um all­an heim að hinn þögli meiri­hluti er að ná vopn­um sín­um á ný.“

Grein­in birt­ist upp­haf­lega í ViðskiptaMogg­an­um sl. miðviku­dag.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK