Heimar hf. hafa gengið frá samkomulagi um helstu skilmála um kaup á öllu hlutafé Grósku ehf. og Gróðurhússins ehf.
Er heildarvirði viðskiptanna er metið á 13.850 m.kr., en inni í því felst m.a. fasteignin Gróska að Bjargargötu 1, sem samnefnt félag á og rekur. Er Gróska um 18.600 fermetrar að stærð ásamt 6.200 fermetrar bílakjallara með 205 stæðum, eða samtals um 24.800 fermetrar. Gróðurhúsið rekur sprotasetur og vinnurými í fasteigninni.
Í tilkynningu frá Heimum kemur fram að samkomulagið feli í sér yfirtöku á skuldabréfaflokknum GROSKA 29 GB. Þá er fyrirhugað er að kaupverðið muni greiðast að öllu leyti með útgáfu og afhendingu 258 milljón nýrra hluta í Heimum.
Stjórnendur Heima áætla að áhrif kaupanna á EBITDA félagsins á ársgrundvelli verði 780 m.kr. í kjölfar viðskipta. Samkomulagið er háð ýmsum fyrirvörum, m.a. samþykki hluthafafundar, niðurstöðu áreiðanleikakannana, endanlega skjalagerð og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Þá segir í tilkynningunni að uppbyggingaraðilar og eigendur Grósku verði eftir kaupin stærstu hluthafar Heima, en eigendur Grósku samkvæmt fyrirtækjaskrá eru þeir Andri Sveinsson, Birgir Már Ragnarsson og Björgólfur Thor Björgólfsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima, segir í tilkynningunni að kaupin á Grósku muni leiða til aukinna verðmæta fyrir hluthafa félagsins „Kaupin falla vel að eignasafni félagsins og samræmast jafnframt þeirri sýn félagsins að skapa sterk kjarnasvæði. Þá er ákaflega ánægjulegt að fá þarna nýja og öfluga einkafjárfesta inn í hluthafahóp Heima sem munu styrkja enn frekar alþjóðleg tengsl okkar og tækifæri til að þróa fyrirtækið áfram.“