Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu segir að nú þegar sé sótt að hefðbundnu viðskiptalíkani banka úr nokkrum áttum, eins og fjallað var um á ráðstefnu sem SFF héldu í síðustu viku með Fjártækniklasanum undir yfirskriftinni Fjármálaþjónusta framtíðarinnar.
„Þar var bent á hvernig bæði ný fjártæknifyrirtæki og stóru erlendu tæknirisarnir sæktu nú að ýmsum þáttum fjármálaþjónustu sem bankar hefðu í gegnum tíðina sinnt. Það stuðlar að aukinni samkeppni og auknum fjölbreytileika í þjónustu sem eru góðar fréttir fyrir neytendur. Samkvæmt mælingum er hreyfanleiki íslenskra neytenda á fjármálamarkaði einna mestur hér í evrópskum samanburði sem er vísbending um mikla samkeppni og upplýsta neytendur,“ segir Heiðrún.
Þá bendir Heiðrún á að sérstaða Íslands þegar kemur að bankarekstri birtist að nokkru leyti í svokölluðu Íslandsálagi sem fjallað var um í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018. Í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon vann á síðasta ári fyrir SFF kom fram að Íslandsálagið kynni að valda því að útlánsvextir hér á landi væru allt að 0,96%-1,15% hærri en ella miðað við gefnar forsendur. Ákvörðun um vexti væri þó ávallt í höndum hvers og eins lánveitanda og væri breytileg t.d. milli tegunda lána og yfir tíma. Í hinu svokallaða Íslandsálagi felast mun hærri sértækir skattar á banka en í nágrannalöndunum, hærri óvaxtaberandi bindiskylda og hærri eiginfjárkröfur, eins og fjallað er um í skýrslu Intellecon.
„Ný ríkisstjórn horfir til þess að færa Ísland nær Evrópusambandinu. Þá gefur augaleið að starfsumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi þarf að vera sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Stjórnvöld hafa nú þegar ýmis tækifæri til að stíga skref í þá átt með því að draga úr Íslandsálaginu og færa með því umgjörð fjármálaþjónustu hér á landi nær því sem tíðkast innan ríkja Evrópusambandsins,“ segir Heiðrún að lokum.
Lesa má greinina í heild sinni í ViðskiptaMogganum.