21 milljarður til Borealis Data Center

Gagnaver félagsins á Blönduósi.
Gagnaver félagsins á Blönduósi.

Gagnaversfyrirtækið Borealis Data Center, sem rekur gagnaver á Íslandi og í Finnlandi, hefur tryggt sér um 21 milljarðs króna fjármögnun til að styðja við frekari vöxt á Íslandi og Norðurlöndunum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Þar segir að fjármögnunarferlið hafi verið leitt af norræna fjárfestingabankanum Pareto Securites. Fjárfestingafélagið Infranity leggur til um 19 milljarða króna langtímafjármögnun og Arion banki veitir tæplega 2 milljarða króna rekstrarfjármögnun.

Áhersla á sjálfbærni

Borealis leggur áherslu á rekstur sjálfbærra gagnavera á norðurslóðum en fyrirtækið rekur þrjú gagnaver hér á landi, á Blönduósi, Fitjum í Reykjanesbæ og á Korputorgi í Reykjavík og einnig í Finnlandi. Borealis er í eigu franska fjárfestingasjóðsins Vauban Infrastructure Partners, sem sérhæfir sig í langtíma fjárfestingum í innviðum.

Fjármögnunin verður nýtt til uppbyggingar á gagnaversinnviðum félagsins á Íslandi og Finnlandi.

Eins og segir í tilkynningunni stendur félagið fyrir mikilli uppbyggingu núna á Blönduósi og mun fjármagnið meðal annars verða nýtt í að efla þá uppbyggingu og flýta henni.

 „Vaxtastefna okkar byggir á því að veita framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina okkar á sama tíma og laða að þá aðila sem gera sífellt flóknari og ríkari kröfur,“ segir Björn Brynjúlfsson, forstjóri og meðstofnandi Borealis Data Center, í tilkynningunni. „Við erum staðráðin í að vera skrefinu á undan framtíðarkröfum og tryggja að aðstaða okkar geti mætt þörfum viðskiptavina á sem sjálfbærastan hátt. Fjármögnunin frá Infranity og Arion gerir okkur kleift að flýta þessari stefnu enn frekar og efla getu okkar.“

Í tilkynningunni segir að fjármögnunin styðji við uppbyggingu fyrir kröfuharða viðskiptavini, til dæmis á sviði gervigreindar og ofurtölva, sem leggja áherslu á aðgang að endurnýjanlegri orku ásamt skilvirkum rekstri. Umfang uppbyggingar er mikið og munu fjöldi verktaka koma að henni.

Björn Brynjúlfsson, forstjóri og meðstofnandi Borealis Data Center.
Björn Brynjúlfsson, forstjóri og meðstofnandi Borealis Data Center.

Spennt fyrir samstarfi

„Við erum spennt að hefja samstarf við Borealis Data Center, leiðandi þróunaraðila, eiganda og rekstraraðila sjálfbærra gagnavera á Norðurlöndunum. Þessi fjármögnun sýnir skýrt vilja okkar til að styðja við og fjármagna mikilvæga stafræna innviði, og endurspeglar jafnframt okkar stefnu um langtíma, stöðugar fjárfestingar í fyrirtækjum og eignum sem stuðla að tæknilegri framþróun og sjálfbærni,“ segir Georgios Tzimas, fjárfestingastjóri hjá Infranity, í tilkynningunni. 

 „Sem viðskiptabanki Borealis Data Center er okkur það sönn ánægja að styðja við vöxt félagsins. Við sjáum gríðarleg tækifæri á gagnaversmarkaðnum, bæði á Íslandi og á alþjóðavísu. Borealis er nú að stíga mikilvæg skref í að stækka og þróa viðskiptamódelið sitt og við erum stolt af því að vera hluti af þeirri vegferð,“ segir Hákon Hrafn Gröndal, framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs Arion banka, í tilkynningunni.

Gagnaver fyrirtækisins á Korputorgi í Reykjavík.
Gagnaver fyrirtækisins á Korputorgi í Reykjavík.

Franski fjárfestingarsjóðurinn Vauban Infrastructure Partners eignaðist meirihluta í Borealis Data Center í október 2021 og tekur virkan þátt í þróun fyrirtækisins eins og fram kemur í fréttatilkynningunni. „Þessi fjármögnun er vitnisburður um árangursríkt samstarf Vauban og Borealis ásamt áhrifaríkri vaxtarstefnu sem fyrirtækið hefur tileinkað sér. Við erum stolt af því að hafa stutt við félagið á þessari vegferð og munum áfram leggja okkar af mörkum til að Borealis geti vaxið og dafnað,“ segir Sam Léa Zhang, fjárfestingastjóri hjá Vauban og stjórnarformaður Borealis Data Center, í tilkynningunni.

Stofnað árið 2014

Borealis Data Center var stofnað árið 2014 og leggur áherslu á rekstur sjálfbærra gagnavera á norðurslóðum en fyrirtækið rekur rekur þrjú gagnaver hér á landi, á Blönduósi, Fitjum í Reykjanesbæ og á Korputorgi í Reykjavík og einnig í Finnlandi.

Meðal viðskiptavina Borealis eru innlend og erlend fjármálafyrirtæki, netfyrirtæki, veitu- og innviðafyrirtæki, aðilar sem standa að rekstri gervitungla, lyfjaiðnaðurinn, bílaframleiðendur og upplýsingatæknifyrirtæki. Fyrirtækið hefur nýlega hlotið ISO 27001/18/17 vottanir fyrir gagnaverastarfsemi sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK