Ómar Már Jónsson, framkvæmdastjóri NEXUM ehf. og miðasölufyrirtækisins MidiX, segir að miðasölumarkaðurinn á Íslandi sé óeðlilega lokaður og skorti raunverulega samkeppni. Hann telur nauðsynlegt að skapa jafnari aðstæður fyrir alla aðila til að stuðla að lægra miðaverði, hraðari þróun tæknilausna og betri þjónustu fyrir viðburðahaldara og neytendur.
„Í dag er einn aðili, Tix.is, með 80-85% markaðshlutdeild og hefur tryggt sér viðskipti við fjölmarga viðburðastaði með samningum sem útiloka aðra þjónustuaðila frá því að veita miðasöluþjónustu á stærstu viðburðastöðum landsins,“ segir Ómar í samtali við Morgunblaðið. „Öll stærstu leikhús landsins eru bundin Tix með samningum þar sem öðrum þjónustuaðilum er beinlínis ekki gefinn kostur á að bjóða í þjónustuna. Þetta á líka við um aðra þjónustuaðila eins og þá sem bjóða upp á hljóð- og ljósakerfi, sem fá ekki tækifæri til að bjóða í þjónustu við viðburðastaðina,“ bætir Ómar við.
Hann segir mörg þessara viðburðahúsa rekin með opinberu fjármagni og eiga samkvæmt því að fylgja meginreglum um gagnsæi og jafnræði. „Við hjá MidiX höfum ítrekað kallað eftir opnu útboðsferli þar sem allir þjónustuaðilar fá raunhæft tækifæri til að gera tilboð, en það hefur ekki enn gerst,“ segir Ómar og bendir á að þegar skattfé almennings sé notað til að fjármagna starfsemi sé það eðlileg krafa að fjármagninu sé varið með ábyrgum hætti og að opið og gagnsætt ferli sé tryggt.
Ómar bendir á að skortur á samkeppni hafi ekki aðeins áhrif á viðburðahaldara heldur einnig á miðakaupendur. „Viðburðahaldari á að geta ráðið því hvar viðskiptavinir hans kaupa miða,“ segir hann. „Þegar einn aðili hefur markaðsráðandi stöðu leiðir það til hærri gjalda fyrir viðburðahaldara og þar með dýrari miða fyrir almenning. Við höfum ítrekað fengið ábendingar frá listamönnum og viðburðahöldurum sem eru margir ósáttir og segja að há gjöld við miðasölu neyði þá til að hækka miðaverð.“
Ómar segir að heiðarleg og virk samkeppni leiði ætíð til betri þjónustu, hraðari tæknilausna og lægra verðs. „Ef fleiri aðilar fá að taka þátt í miðasölumarkaðnum neyðist markaðurinn til að þróast hraðar, viðburðahaldarar fá betri þjónustu og neytendur fá hagkvæmara verð. Það hefur alltaf verið raunin í öllum atvinnugreinum þar sem sanngjörn samkeppni er tryggð.“
Hann ítrekar þó að markmið MidiX sé ekki að úthrópa einstaka aðila heldur að stuðla að sanngjarnari samkeppni. „Við höfum áhuga á að starfa með öllum viðburðastöðum og bjóðum upp á lausnir sem geta lækkað kostnað þeirra og veitt meiri sveigjanleika. Við erum ekki að biðja um neina sérmeðferð heldur einfaldlega að fá tækifæri til að keppa á jafnréttisgrundvelli.“
Ómar hefur leitað til Samkeppniseftirlitsins, sem er með málið til skoðunar. Hann telur það mikilvægt skref í að skapa heilbrigðara viðskiptaumhverfi fyrir miðasöluþjónustu á Íslandi.
Að lokum segir Ómar að miðasölumarkaðurinn á Íslandi sé áætlaður 8–10 milljarðar króna á ári. Hann nái yfir menningarhús og viðburðastaði eins og Hörpu, Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Hof, Salinn í Kópavogi, Tjarnarbíó, Háskólabíó og Laugardalshöll, auk íþróttaviðburða, árshátíða, tónlistarhátíða og annarra stórviðburða.