Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á peningamálafundi Viðskiptaráðs að hann teldi að verðbólgan færi niður fyrir 4% á næstu tveimur mánuðum.
„Ég verð að minnsta kosti fyrir miklum vonbrigðum ef það gerist ekki. Síðan er spurning um hvað gerist næst. Það er að segja hvort hún haldi síðan áfram að hjaðna. Þá kemur að ríkisfjármálastefnu stjórnarinnar,“ sagði Ásgeir.
Peningamálafundur Viðskiptaráðs var haldinn á Grand Hóteli síðastliðinn fimmtudag. Fundurinn bar yfirskriftina: Liggja leiðir til lágra vaxta?
Andri Þór Guðmundsson formaður Viðskiptaráðs flutti opnunarávarp á fundinum og lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi verðmætasköpunar og stöðugleika í hagkerfinu. Hann hvatti stjórnvöld til að vinna með peningastefnunni, draga úr halla ríkisfjármála og forðast að veikja framboðshlið hagkerfisins með þungu regluverki.
Ásgeir sagði jafnframt í erindi sínu að Grindavíkuráhrifin hefðu valdið því að kippur kom í fasteignamarkaðinn í kjölfar þess að finna þurfti ný heimili fyrir Grindvíkinga.
„Ég tel að Grindavíkuráhrifin sem nú eru gengin yfir hafi tafið vaxtalækkunarferlið um sex mánuði,“ sagði Ásgeir.
Hann rifjaði upp árið 2022 þegar verðbólgan var á uppleið. Hann sagðist hafa talið að allir myndu ganga í takt á þeim tímum. Það hefði þó ekki orðið raunin.
„Það voru gerðir skammtímasamningar upp á gríðarlegar launahækkanir. Ríkisfjármálin voru líka út úr öllu korti og eina leiðin til að bregðast við þessari stöðu var vaxtahækkanir,“ sagði Ásgeir.
Hann benti einnig á í erindi sínu að launahækkanir á Íslandi hefðu verið mun meiri en í nágrannaríkjum.
„Í launaumræðu á Íslandi snýst allt um einhverjar launaleiðréttingar og hver eigi hvað skilið. En við getum ekki farið fram á hærri laun en gengur og gerist hjá þjóðunum í kringum okkur. Það sem skiptir máli er að raunlaun á Íslandi hafa hækkað gífurlega. Lífskjör á Íslandi eru til að mynda betri en í Noregi.“
Ásgeir benti á að það yrði að hafa í huga að verðbólga á Íslandi væri mjög ólík þeirri verðbólgu sem herjar á Evrópu. „Hjá okkur var þetta ekki orkuverðsverðbólga. Verðbólga á Íslandi hækkaði síðar en hefur verið miklu þrálátari því að verðbólga á Íslandi stafar af launaþrýstingi meira og minna,“ sagði Ásgeir.
Að erindi seðlabankastjóra loknu fóru fram pallborðsumræður undir stjórn Björns Brynjúlfs Björnssonar framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.
Þátttakendur í pallborði voru Birna Einarsdóttir, stjórnarformaður Iceland Seafood International, Lárus Welding, rekstrarstjóri Stoða, Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Þórarinn sagði meðal annars að það gleymdist gjarnan að fullfjármögnuð ríkisútgjöld geta líka hvatt til þenslu. Hann kallaði eftir meiri framleiðni, samkeppni og frjálsum viðskiptum.
Þá hvatti Lárus Welding stjórnendur Seðlabankans til að láta meira í sér heyra varðandi útþenslu hins opinbera.