Morgunblaðið var með frétt í ViðskiptaMogganum í vikunni þar sem fjallað var um Leigufélag aldraðra hses. og sölu eigna þess til Brákar íbúðarfélags, nánar tiltekið eigna að Dalbraut 6 á Akranesi og Vatnsholti 1 og 3 í Reykjavík.
Við sölu eignanna var gert upp við Arion banka og er því uppgjöri nú lokið. Afskrifaði bankinn framkvæmdalán að hluta og féll frá áföllnum vöxtum og kostnaði.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur ekki allt verið með felldu við rekstur leigufélagsins og illa að rekstrinum staðið í langan tíma.
Staða félagsins er alvarleg; ljóst er að framkvæmdakostnaður fór verulega fram úr áætlunum og er félagið í miklum fjárhagsvanda vegna þessa. Alls eru um 90 milljónir króna enn ógreiddar sem verktakar og aðrir hafa gert kröfu um á leigufélagið. Sumir reikningarnir eru frá því í mars á síðasta ári.
Unnið er að úrvinnslu málsins og eru það endurskoðunarskrifstofan KPMG og Foss lögmenn sem fara fyrir úrvinnslunni. Unnið er að kröfuhafasamkomulagi sem fæli í sér uppgjör krafna sem réttmætar eru og þá frjálsum nauðasamningum. Er ljóst að félaginu verður slitið.
Fundur er áætlaður í næstu viku meðal kröfuhafa. Samkvæmt heimildum er talið líklegt að flestir fái því sem næst að fullu greitt, ásamt áföllnum kostnaði. Hins vegar er bent á að við úrvinnslu málsins hafi vaknað grunsemdir um að óeðlilega hafi verið staðið að ýmsum greiðslum félagsins. Svo virðist sem valið hafi verið handvirkt hver hafi fengið greitt og hvenær. Samkvæmt sömu heimildum tengjast þessar greiðslur fyrrverandi stjórnarmönnum félagsins.
Farið verður yfir rekstur félagsins, greiðslur, uppgjör krafna og næstu skref með kröfuhöfum á fundinum í næstu viku.