„Þessi vél sem ríkið er reynist vera 100% skilvirk þegar kemur að því að taka peninga af fólkinu í landinu, og eru engir sénsar gefnir; þú skalt skila skattframtalinu þínu á tilteknum tíma og borga án tafar því annars hlýturðu verra af. En þegar dæminu er snúið við og ríkið spurt í hvað peningarnir hafa verið notaðir kemur annað hljóð í strokkinn, fyrirspurnum er ekki svarað og reynt er eins og frekast er unnt að halda upplýsingum frá almenningi. Hið opinbera vill fá peninginn þinn strax en ef þú hefur einhverjar spurningar geturðu átt þig.“
Þetta segir Róbert Bragason, stjórnarmaður hjá Samtökum skattgreiðenda, en undanfarin misseri hefur hann rýnt í rekstrartölur ráðuneyta og stofnana og komið auga á að upplýsingagjöf til almennings er mjög gloppótt. Athygli Róberts hefur einkum beinst að upplýsingagáttinni Opnirreikningar.is sem ætlað var að auka gagnsæi um fjármál ríkisins.
„Í samræmi við fjármálastefnu fyrir tímabilið 2017 til 2022 opnuðu stjórnvöld vefinn Opnirreikningar.is árið 2017 undir þeim merkjum að verið væri að opna bókhald ríkisins upp á gátt fyrir almenningi, og meira að segja fólk sem starfar hjá hinu opinbera heldur að á þessum vef megi sjá alla myndina. Það útheimtir heilmikla vinnu að komast að því að svo er ekki, heldur er upplýsingagjöfin á Opnirreikningar.is afvegaleiðandi og stór hluti útgjalda ekki birtur þar,“ segir Róbert.
Allt frá upphafi hafa Opnirreikningar.is undanskilið launagreiðslur og kostnað vegna bóta og læknisheimsókna, sem Róbert segir hafa verið réttlætt með vísan til þess að vernda viðkvæmar persónuupplýsingar. „Upplýsingagáttin á hins vegar að sýna allan annan rekstrarkostnað, en ef nánar er að gáð vantar í þá tölu.“
Úttekt Samtaka skattgreiðenda hefur leitt í ljós að aðalskrifstofur ráðuneytanna gera aðeins hluta af öðrum rekstrarkostnaði sínum opinberan á opnirreikningar.is. „Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið gerir t.a.m. aðeins grein fyrir um 45% af öðrum rekstrarkostnaði sínum á tímabilinu 2019-2023, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 52% og sjálft fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki nema 62%, svo dæmi séu tekin. Við þetta bætist svo að öll ráðuneytin eru með í sinni umsjá sérstakan undirfjárlagalið undir heitinu „ýmislegt“. Aðeins eitt ráðuneyti – heilbrigðisráðuneytið – birtir kostnað af þessum undirfjárlagalið á Opnirreikningar.is. Öll önnur ráðuneyti sleppa því einfaldlega að birta kostnaðarupplýsingar af þessum undirfjárlagaliðum, sem mætti þá jafnvel kalla eins konar hliðarbókhald,“ útskýrir Róbert. „Frá árinu 2017 er samtala annars rekstrarkostnaðar allra þessara undirfjárlagaliða um 30 milljarðar, en heildarfjárhæð sem birtist á opnirreikningar.is einungis um 17 milljarðar og allir frá þessu eina ráðuneyti – heilbrigðisráðuneyti. Er virkilega hægt að tala um þetta sem opið bókhald?“
Skekkjan í þeim tölum sem Opnirreikningar.is sýna er sem sagt veruleg og segir Róbert að þegar tímabilið 2017 til 2023 sé skoðað, og eftir að launakostnaður hafi verið undanskilinn, sýni tölurnar sem birtar eru í upplýsingagáttinni aðeins 44% af raunverulegum útgjöldum ráðuneytanna í heild og hljóði gatið í upplýsingagjöfinni upp á marga milljarða ár hvert.
Það bætir gráu ofan á svart að upplýsingaöflun Samtaka skattgreiðenda hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. „Það sýnir kannski þörfina fyrir samtök eins og okkar að það væri varla á færi fjölmiðils að leggja í svona rannsóknarblaðamennsku, en það hefur verið algengt að 2-3 mánuði taki að fá þau yfirlit sem við höfum beðið um hjá ráðuneytunum. Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur verið okkur mjög gagnleg því þegar staðið hefur á svörum frá ráðuneytunum hef ég sent nefndinni kæru og bregðast ráðuneytin þá við áður en úrskurða þarf um kæruna,“ segir Róbert og bætir við að það eigi ekki að útheimta mikla vinnu hjá starfsfólki ráðuneytanna að útvega umbeðin gögn. „Ef bókari væri beðinn um hreyfingalistann hjá meðalstóru fyrirtæki fyrir tiltekið ár tæki það verkefni innan við fimm mínútur.“
Að mati Róberts er það mjög alvarlegt mál að upplýsingagjöf hins opinbera sé svona gloppótt. Nefnir hann í því sambandi að stjórnvöld hafi nýlega óskað eftir niðurskurðartillögum frá almenningi, en erfitt sé fyrir borgarana að koma með ábendingar af nokkru viti þegar aðeins hefur verið sýnd sundurliðun á hluta af rekstrarkostnaði ráðuneytanna.
En ferskir vindar blása núna um heiminn og hefur varla farið framhjá neinum hvernig t.d. Javier Milei hefur tekið ríkisfjármálin föstum tökum suður í Argentínu, og Elon Musk verið fenginn til að ráðast í meiriháttar grisjun á útgjöldum ríkisins í Bandaríkjunum. „Almenningur er í fyrsta skipti að fá að skoða upplýsingar úr bókhaldi ríkisins sem þóttu svo viðkvæmar að þær þyldu ekki dagsins ljós, og benda viðbrögðin til þess að fólk sé ekki ánægt með það sem það hefur fengið að sjá. Er ekki nema von ef íslenskir skattgreiðendur spyrja hvers vegna íslensk ráðuneyti telja það óráðlegt að gera almennilega grein fyrir um það bil helmingi kostnaðar síns,“ segir Rúnar. „Ekki er um neinar tæknilegar hindranir að ræða og væri raunar tæknilega mögulegt að birta upplýsingar um öll útgjöld ríkisins í rauntíma ef stjórnvöld vildu.“