Lítill hópur en skaðinn mikill

Sumir leiðtogar ættu að standa upp og setjast niður við …
Sumir leiðtogar ættu að standa upp og setjast niður við eigið eldhúsborð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Leiðtogar kennara vita sem er að þeir hafa ekki efni á að fara í allsherjarverkföll, né vilja þeir fá yfir sig almenna reiði samfélagsins. Því reyndu þeir að velja úr skóla sem að þeirra mati myndu ekki rugga samfélaginu of mikið. Gekk ekki betur en svo að þeir fengu á sig dóm. Krossferðin á enda komin, tími til að semja.

Einar borgarstjóri lýsir því óvænt yfir í viðtali að það sé ekki hans launaseðill sem skipti öllu máli. Þvílíkur þyrnirósarsvefn sem þetta hefur verið hjá Einari síðustu ár. Það er öllum ljóst að það er ekki launaseðillinn sem hann á að vera að hugsa um og enginn er að hugsa um hann nema Einar sjálfur. Nú er hann hins vegar búinn að opna geymsluna fyrir öll varahjólin sem vinstrimenn bjóða upp á, varahjól sem eru fyrir löngu loftlaus orðin.

Inga Sæland heldur áfram að fá frekjuköst og sannar með hverju þeirra að flokkur hennar er ekkert nema hennar eigið eldhúsborð. Það eru ekki málefnin sem skipta nokkru máli heldur það sem er best fyrir hana sjálfa. Fjármálaráðherra sýndi ekki þá festu sem hann þóttist hafa er hann blés í hagræðingarlúðrana með Kristrúnu forsætisráðherra. Ráðherra átti fyrir hönd ríkisins að krefjast endurgreiðslu styrkjanna sem eldhúsflokkurinn tók við, þrátt fyrir að vita betur. Þess í stað fékk hann lögfræðilegt álit til að fela sig á bak við. Álit sem er meingallað, enda þeir sem setja lögin varla grandlausir um innihald, kröfur og afleiðingar þeirra.

Inga hefði getað verið í enn einu lykilhlutverkinu með eldhúsflokkinn sinn ef flokkurinn hefði stigið inn í borgina, þannig náð að þvinga fram málefni sem flokkurinn hefur barist þar fyrir í mörg ár. Málefnin fuku hins vegar út um eldhúsgluggann þegar Inga lokaði á nokkurt samstarf.

Controlant með sína tvo forstjóra er illa statt, þetta fyrirtæki sem lifði góðu lífi á veirutímum og fjárfestar báru á herðum sér. Hrópuðu um göturnar að gullgæsin væri fædd. Nú færir Sjóvá enn og aftur eignarhlut sinn í félaginu niður. Í árslok 2021 var eignarhlutur Sjóvá í félaginu metinn á einn milljarð. Í uppgjörinu nú fyrir 2024 er hluturinn metinn á 200 milljónir og leiðtogar Sjóvá ítreka við fjárfesta því samhliða að það sé ekkert að marka stjórnendur Controlant né áætlanir þeirra.

Sýn kemur síðan óvænt fram og tilkynnir mikil frávik frá áætlunum félagsins og bendir á óskiljanlegt tjón af völdum bruna sem skaðar fyrirtækið um 400 milljónir sem ekki er tryggt. Betur hefði farið á því að fyrirtækið hefði tilkynnt um þetta þegar tjónið lá fyrir í lok júlí á síðasta ári. Upplýsingagjöf og innri kerfi félagsins virðast hins vegar vera ævintýralega slæm eða stjórnun félagsins eitthvað sem þarf að bæta.

Það sem er sameiginlegt þessum málum öllum er sú krafa að leiðtogar rísi ofar persónulegum hagsmunum sínum. Reki skyldur sínar gagnvart umbjóðendum sínum af einurð, hvort sem það eru borgarbúar eða hluthafar. Frekjuköst, sjálftaka, óheiðarleiki og flótti við sannleikann eiga ekki að líðast. Slíkir leiðtogar ættu að missa stóla sína og setjast aftur við eigið eldhúsborð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK