Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í síðustu viku að stýrivextir yrðu lækkaðir um 50 punkta og standa þeir því nú í 8%. Gestir í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna voru þeir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka og Valdimar Ármann, fjárfestingarstjóri Arctica sjóða. Í þættinum var rætt um vaxtaákvörðunina, óvissuna í alþjóðlegum efnahagsmálum og efnahagshorfur hérlendis.
Spurðir hvort eitthvað í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar hafi komið þeim á óvart segir Valdimar að það hafi helst verið tónninn í yfirlýsingunni.
„Seðlabankinn vill koma því skýrt á framfæri að hann er ekki að minnka aðhaldið í hagkerfinu, það er að segja hann er ekki að lækka raunstýrivexti. Hann er að laga nafnstýrivexti að lækkandi verðbólgu,“ segir Valdimar og bætir við að honum hafi þótt yfirlýsingin heldur hvöss.
„Seðlabankanum hefur ef til vill ekki fundist markaðurinn búinn að hlusta nægilega vel á sína framsýnu leiðsögn,“ segir Valdimar.
Jón Bjarki tekur undir og bendir á ein nýmæli sem komu fram í yfirlýsingunni.
„Það var tekið fram að allir nefndarmenn hefðu verið sammála um ákvörðunina. Það hefur ekki verið birt með yfirlýsingunni áður, en sú breyting er víst komin til að vera. Það verður þó ekki tilgreint fyrr en fundargerðin kemur út hvaða nefndarmenn greiddu atkvæði með hvaða tillögu,“ segir Jón Bjarki.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: