Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár segir að félagið sjái þau tækifæri sem felist í að vera með tryggingafélag sem sé ótengt fjármálafyrirtækjum.
Sjóvá er svo gott sem eina tryggingafélagið á markaðnum hér á landi sem er ekki annaðhvort hluti af fjármálafyrirtæki eða í samstarfi við slíkt. Arion og Vörður sameinuðust fyrir nokkrum árum. Landsbankinn keypti TM af Kviku á síðasta ári og á þessu ári var tilkynnt að Íslandsbanki og VÍS, sem er hluti af Skaga-samstæðunni, myndu hefja samstarf.
Hermann segir að Sjóvá líti á sína stöðu sem sjálfstætt, óháð tryggingarfélag sem skýran valkost á markaði og hafi náð frábærum árangri í rekstri sem slíkt.
„Við teljum tækifæri felast í þeirri aðgreiningu sem við höfum náð á markaðnum og byggjum þar á yfirburðaþjónustu og þekkingu á tryggingum. Það er annarra að meta kosti og galla við samþættingu banka og tryggingafélaga,“ segir Hermann og bætir við að félagið fylgist þó spennt með þróuninni á markaði.
„Það er öllum frjálst að hreyfa sig á markaði og ég segi það fullum fetum að sú staða sem við erum í nú er val. Þetta er ekki staða sem við lentum í. Okkar eigendur hafa nálgast hlutina með þessum hætti,“ segir Hermann.
Hann bendir á að Sjóvá sé með um 35% hlut af markaðnum og meti það þannig að þriðjungur af viðskiptavinum Sjóvár sé í viðskiptum við Arion, annar þriðjungur í viðskiptum við Landsbankann og þriðjungur í viðskiptum við Íslandsbanka.
„Þetta rekstrarmódel hefur virkað vel fyrir okkur. Það er aldrei hægt að segja aldrei þó. Það getur einhver keypt okkur eins og aðra. Við metum okkar stöðu þó sterka og ætlum að iðka það sem við höfum hingað til gert vel. Við erum fagfólk í tryggingum og þannig ætlum við að ná árangri,“ segir Hermann.
Hermann segir að rekstrarniðurstaða ársins 2024 endurspegli afar sterkan grunnrekstur félagsins þrátt fyrir krefjandi umhverfi á árinu, einkum vegna óvenju margra brunatjóna.
„Rekstur vátryggingastarfseminnar einkenndist af undirliggjandi hagfelldri tjónaþróun, framþróun á þjónustuleiðum og áframhaldandi áherslum á framúrskarandi þjónustu sem skilar sér í mjög góðri rekstrarniðurstöðu og samsettu hlutfalli á árinu miðað við aðstæður,“ segir Hermann.
Hagnaður síðasta árs hjá Sjóvá nam 4.241 milljón króna og arðsemi eigin fjár var 17,5%.
Afkoma ársins 2024 af vátryggingasamningum fyrir skatta nam 1.283 milljónum króna og samsett hlutfall var 96,2%. Tekjuvöxtur nam 7,4% sem var í takt við áætlanir félagsins en minni en síðustu ár.
Í uppgjörinu segir að hafa verði í huga að markaðshlutdeild hafi aukist mikið undanfarin ár með heilbrigðum vexti. Áfram verður lögð áhersla á arðbæran og ábyrgan tryggingarekstur með framúrskarandi þjónustu en vöxtur er gjarnan afleiðing þess eins og hefur verið í tilfelli Sjóvár, segir í uppgjörinu.
Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta nam 3.435 milljónum króna og var ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu 9,4% á árinu. Það er í samræmi við væntingar okkar í upphafi árs en er ánægjulegt í ljósi erfiðra eignamarkaða framan af ári bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði. Markaðir tóku við sér á haustmánuðum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist sem svo varð raunin. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu fyrir utan óskráð hlutabréf. Stærsta einstaka breytingin var á virði eignarhlutar í Controlant sem var færður niður um 77% á árinu eða um 675 milljónir króna. Hluturinn í Controlant var bókfærður á genginu 24.
Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá, sagði á uppgjörsfundinum að Sjóvá hefði komið á framfæri andmælum á hluthafafundi Controlant þess efnis að upplýsingar frá stjórnendum Controlant hefðu ekki reynst réttar.
Í uppgjörstilkynningu kemur fram að arðgreiðslustefna félagsins miði við að greiða að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs til hluthafa í formi arðs að teknu tilliti til gjaldþols. Samþykkt var á stjórnarfundi að leggja til við hluthafafund að greiða út arð að fjárhæð 3.400 milljónir króna eða 2,94 kr. á hlut.
Fjármálaeftirlitið hefur veitt félaginu heimild til endurkaupa á eigin bréfum á árinu 2025 sem byggist á heimild aðalfundar Sjóvár 7. mars sl. Endurkaup munu sem fyrr taka mið af gjaldþolsviðmiðum stjórnar.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum.