Sveinn Sölvason forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Embla Medical segir að fyrirtækið sé komið í þriðja fasa á þróunarbraut sinni en saga fyrirtækisins hófst með stofnun Össurar hf. fyrir rúmlega fimmtíu árum síðan.
Þriðji fasinn snýr að því að þjónusta þá notendur sem þurfa á lausnum fyrirtækisins að halda. „Þessi stefna var mörkuð fyrir tveimur árum í sérstakri fimm ára áætlun sem beinir sjónum félagsins að margvíslegum þörfum notenda í stað þess að vera nánast eingöngu tækni- og vörudrifið. Við viljum þjónusta fleiri hópa sem eiga við varanlega hreyfanleikaáskorun að stríða og erum stolt af því að hafa tekið stór skref í þá átt á liðnu ári.“
Eitt af þessum skrefum var stofnun hins nýja móðurfélags, Embla Medical. „Móðurfélagið styður við frekari vöxt og gefur okkur tækifæri til að skerpa enn frekar á hlutverki okkar á mismunandi stöðum í heildarvirðiskeðjunni. Þetta var nauðsynlegt skref bæði inn á við og út á við, til að greina á milli mismunandi þátta í okkar rekstri. Össur verður áfram flaggskipið hvað vörur varðar en á síðasta ári tókum við ákvörðun um að sameina allan þjónustureksturinn undir nýju vörumerki, ForMotion. Þannig að hlutverk Emblu er að styðja við vöxt fyrirtækisins. Embla tryggir réttu samlegðina en heldur ákveðnum aðskilnaði, því þetta er ólík starfsemi. Það styrkir samkeppnisstöðu okkar að vera bæði sterkt þjónustu- og vörufyrirtæki.“
Enn annað stórt skref á síðasta ári voru kaupin á þýska fyrirtækinu Fior & Gentz. „Það þróar lausnir fyrir einstaklinga sem hafa misst getu til að nýta vöðvana í neðri hluta líkamans vegna t.d. MS-sjúkdómsins eða heilablæðingar. Í þeim tilfellum þarf að smíða utanáliggjandi lausn til að endurvekja fyrri hreyfanleika. Þetta lítur út eins og spelka sem er sérsniðin að hverjum einstaklingi. Sama á við um stoðtækin sem við smíðum. Það þarf alltaf að sérsníða ákveðinn hluta af lausninni.
Fior & Gentz-lausnirnar eru einmitt dæmi um þá sérstöðu sem við höfum markað okkur, að styðja við einstaklinga með varanlegar hreyfanleikaáskoranir. Við viljum hjálpa þeim að auka lífsgæði og hreyfanleika. Það margborgar sig að styðja við aukinn hreyfanleika fólks. Af því hljótast aukin lífsgæði og heilbrigðiskerfið nýtur góðs af,“ útskýrir Sveinn.
Hann segir að því miður sé enn of lítil meðvitund í kerfinu um þessa tilteknu lausn. „Í langflestum tilvikum þegar fólk fær heilablóðfall og missir hreyfigetu tekur við sjúkraþjálfun og einhver endurhæfing. Oft á tíðum týnast þessir einstaklingar í kerfinu. En það er okkar verkefni að auka þekkingu um lausnirnar og vinna í að fá endurgreiðsluaðila til samstarfs,“ segir Sveinn. Þar á hann við opinberar sjúkratryggingar og tryggingafélög sem greiða fyrir lausnir þeirra sem þurfa á þjónustu Emblu að halda.
Annar mikilvægur áfangi í fyrra var samþykkt bandaríska sjúkratryggingakerfisins Medicare á auknu aðgengi að tölvustýrðum hnjám eins og þeim sem Embla framleiðir. „Hingað til hefur afmarkaður hópur einstaklinga notið endurgreiðslu á þessum hátæknihnjám, en nú er búið að víkka út notendahópinn sem hefur möguleika á að fá slík hné. Ástæðan er að stoðtækjaiðnaðurinn hefur með gögnum náð að sannfæra yfirvöld um að betri lausnir sem skynja umhverfið og hjálpa notendum að vera hreyfanlegri skili sér í að viðkomandi verði þá minna líklegur til að detta og slasa sig og enda þar með inni á spítala með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Þannig að þegar horft er á þetta heildstætt þá ertu með þessum lausnum að lækka kostnaðinn við notendahópinn, þó svo að búnaðurinn sé dýrari.“
Spurður að því hversu auðvelt eða erfitt það sé að sannfæra yfirvöld um endurgreiðslur, segir Sveinn að það sé mjög erfitt. „Hvert land hefur sínar eigin aðferðir við að meta hvaða leiðir á að fara. Það er engin alheimslausn til á þessu þannig að við vinnum þetta í hverju landi fyrir sig. Heilbrigðismarkaðurinn er stór og flókinn. Lyfjafyrirtækin eru einna stærst og margir að keppast um sömu fjármunina. Þetta er talsverð áskorun og hlutfallsleg notkun á góðum lausnum er enn mjög lítil, jafnvel í löndum með gott heilbrigðiskerfi, og enn minni í þeim löndum sem eru ekki með neitt heilbrigðiskerfi. Þar sem aðgengið er minnst eru einmitt flestir sem þurfa á okkar vörum og þjónustu að halda. Þannig að við erum með stórt og mikilvægt verkefni á okkar höndum og fjölda tækifæra.“