Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru brögð að því að bankareikningum Íslendinga sem þeir eiga í erlendum bönkum sé lokað með stuttum fyrirvara.
Dæmi eru um að Íslendingar sem búsettir hafa verið í Sviss með bankaviðskipti við svissneska bankann UBS hafi þurft að loka reikningum sínum flytji þeir til Íslands. Skiljanlega sé það breyting fyrir bankann að einstaklingur flytji lögheimili í annað land en svo virðist sem skilmálarnir eigi við um Íslendinga umfram aðra.
Einnig hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að breski bankinn Barclays hafi lokað á reikninga Íslendinga sem voru skráðir til heimilis á Íslandi þegar þeir opnuðu reikning í bankanum og hafa átt hann í mörg ár.
Það virðist því ekki vera skráningin milli landa ein og sér sem hafi þessi áhrif.
Í tilkynningu Barclays, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, kemur skýrt fram að stefnubreyting sé innan bankans og hann muni ekki veita Íslendingum þjónustu. Sérstaklega er tekið fram í bréfinu að bankinn muni hætta að þjónusta Íslendinga.
Bankarnir bera fyrir sig bankaleynd þegar til þeirra er leitað og vísa í almennar innanhússreglur til að útskýra þessar fyrirskipuðu lokanir á reikninga Íslendinga.
Morgunblaðið hefur hins vegar eftir heimildarmanni að samkvæmt samtali við banka sinn um fyrirskipaða lokun reikninga hafi bankinn vísað til þess að Ísland uppfylli ekki peningaþvættisreglur bankans sjálfs og ekki sé forsvaranlegt að leyfa skráðum aðila á Íslandi að eiga reikninga í bankanum erlenda. Ísland sé því skráð á bannlista innanhúss.
Morgunblaðið leitaði til Seðlabankans sem ekki kannaðist við þetta vandamál né að Ísland væri á neinum slíkum bannlistum.
mj@mbl.is