Hampiðjan tilkynnti rétt fyrir síðastliðna helgi að félagið hefði fest kaup á 75,1% hlut í indverska neta- og kaðlaframleiðslufyrirtækinu Kohinoor Ropes Pvt. Ltd. Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar segir í samtali við ViðskiptaMoggan kaupin hluta af langtímastefnu félagsins um að skapa sér sterkari samkeppnisgrundvöll á alþjóðavettvangi.
Hjörtur útskýrir að kaupin á Kohinoor hafi átt sér nokkurn aðdraganda og að vegferðin hafi í raun byrjað í ársbyrjun 2024 ári eftir að gengið var frá samningi um kaup á öllu hlutafé í norska félaginu Mørenot. Það félag hefur, líkt og Hampiðjan, framleitt og þjónustað veiðarfæri, búnað til fiskeldis sem og ofurtóg fyrir olíuiðnað og vindmyllur til hafs.
„Þeir voru búnir að vera í samstarfi við þetta indverska fyrirtæki og höfðu gert samninga við Kohinoor til fimm ára. Mørenot var að kaupa töluvert af köðlum af þeim fyrir fiskeldiskvíar og samstarfið gekk vel,“ segir Hjörtur. Styttist þó í að samningar norska dótturfélagsins og Kohinoor myndu renna út og komu því fulltrúar indverska félagsins til Noregs.
„Þarna fengum við að kynnast þeim betur. Við vorum búin að sjá töluvert af vörum frá þeim og þótti þær góðar og vandaðar,“ útskýrir hann og bendir á að sala og þjónusta við fiskeldið sé stór hluti af starfsemi dótturfélagsins Mørenot og ekki síður Vónarinnar, dótturfélags Hampiðjunnar í Færeyjum.
Í ársbyrjun 2024 varð umturnun á markaði fyrir félög sem selja búnað fyrir fiskeldi á Norður-Atlantshafi, að sögn Hjartar. Þá slítur indverski framleiðandinn Garware samstarfi við norska félagið Selstad sem það hafði framleitt vörur fyrir um árabil, en þess í stað nýtir sér uppsafnaða þekkingu úr samstarfinu og byrjar að selja vörur sínar beint án aðkomu norska félagsins.
„Samkeppnin varð harðari og augljóst að erfitt yrði að keppa með framleiðslu í Litháen. Til þess að lenda ekki í sambærilegri atburðarás fannst okkur mikilvægt að tryggja eignarhlut í framleiðandanum. Við komumst að þeirri niðurstöðu í haust að við vildum athuga vilja eigenda að selja okkur meirihluta í félaginu, en það sem telst ráðandi meirihluti á Indlandi er 75% en hér á landi er oft miðað við tvo þriðju.“
Kaupverðið er að vissu leyti bundið árangri í rekstri Kohinoor en ætla má að það sé 26 milljónir evra, jafnvirði 3,8 milljarða íslenskra króna, og eru kaupin fjármögnuð með eigin fé Hampiðjunnar og 15 milljóna evra lána frá Arion banka.
Hjörtur segir Kohinoor framleiða vörur sem evrópskir framleiðendur hafa meðal annars þurft að hætta að útbúa einfaldlega vegna þess að kostnaðurinn sé of hár í samkeppni við ódýrari framleiðsluríki.
„Það er til að mynda breyting að eiga sér stað á fiskeldismörkuðum. Í stað þess að nýta nælon er í auknum mæli notað efni sem er svipað því sem er notað í fiskitroll hér á Íslandi. Það efni er mjög stíft og ekki hægt að sauma í saumavélum og verður allt að gerast í höndum. Þá fjölgar vinnutímum á hverja kví og það að hafa slíka framleiðslu í Evrópu er bara ekki samkeppnishæft. Það eru aðrir framleiðendur á Indlandi sem eru líka að selja inn á evrópska markaðinn og við verðum að starfa á sömu forsendum til að geta staðið í samkeppni. Með kaupunum á Kohinoor komumst við inn á þessa markaði.“
Leiða kaupin til þess að dregin verði saman umsvif á öðrum starfsstöðvum Hampiðjunnar?
„Kaupin á Kohinoor munu ekki hafa nein áhrif á starfsemi Hampiðjunnar á Íslandi að öðru leyti en að Hampiðjan geti boðið kaupendum hér á landi hagstæðara verð. Í Litháen og Póllandi er þetta aðeins öðruvísi því þar höfum við haft umfangsmikla framleiðslu og þó nokkra framleiðslu í Noregi.“
„Á Indlandi er netaverkstæði sem tekur við netinu og framleiðir eldiskvíar. Þá verður framleiðsla eldiskvía öll á einum stað í stað þess að framleiða netin í Evrópu og flytja til Indlands til að gera kvíar og svo aftur til baka. Með þessu erum við að einfalda ferla töluvert mikið og gera allt miklu hagkvæmara.“
Hjörtur segir hins vegar nauðsyn að hafa framleiðslugetu í Litháen fyrir fiskeldið, því pantanir geta borist með mjög skömmum fyrirvara og þá þurfi að hafa sveigjanleika til að geta brugðist skjótt við og eiga stuttar flutningsleiðir.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum.