Enn tækifæri í fyrirtækjakaupum

Sveinn Sölvason forstjóri Embla Medical.
Sveinn Sölvason forstjóri Embla Medical. Eyþór Árnason

Stoðtækjafyrirtækið Embla Medical hefur í gegnum tíðina keypt hátt í eitt hundrað fyrirtæki. Spurður um áframhaldandi ytri vöxt á þessu ári segir Sveinn Sölvason forstjóri fyrirrtækisins að enn séu tækifæri til að samþætta og kaupa fyrirtæki í geiranum með lausnir sem henta dreifikerfi Emblu. „Einn af aðalstyrkleikum okkar er að við erum með aðgengi að öllum helstu mörkuðum, þannig að já, ytri vöxtur og kaup á fyrirtækjum verður áfram hluti af vegferð okkar. Við viljum áfram skila öflugum innri vexti í bland við ytri vöxt. Fyrirtækið hefur ávallt tekið virkan þátt í þessari samþættingu í iðnaðinum og við sjáum tækifæri í því.“

Eins og fram kemur í fimm ára áætlun fyrirtækisins er markmiðið að vaxa árlega með 5-7% innri vexti en 7-10% heildarvexti.

Stór skref

„Skrefin voru stór í fyrra. Nú eru ákveðin verkefni í vinnslu en þau verða minni og meðalstór borið saman við 2024. Við erum alltaf að horfa í kringum okkur og það er ekki ólíklegt að það takist að ljúka nokkrum yfirtökuverkefnum á þessu ári.“

Síðasta ár var það tekjuhæsta hjá Emblu frá upphafi. Tekjurnar námu 855 milljónum bandaríkjadala, eða 122 milljörðum íslenskra króna.

Hagnaður var 69 milljónir dala eða 9,8 milljarðar króna sem er 8% af tekjum.

Spurður um rekstrarniðurstöðu ársins segist Sveinn ánægður. „Við tókum góð skref fram á við og erum að ná til fleiri einstaklinga með betri lausnum. Sala hátæknilausna er að aukast sem hlutfall af tekjum þannig að við getum sagt að við séum að búa til jákvætt virði í stóra samhenginu,“ segir Sveinn og bætir því við að lokum að ein sterkasta og verðmætasta eign fyrirtækisins sé að einhverju leyti hinn auðskiljanlegi tilgangur Emblu sem auðvelt sé að sameinast um. „Það býr til mikla orku inn í fyrirtækið að vita að við erum að gera gagn.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK