Ráðist til atlögu við þá ósnertanlegu

Upplýsingaóreiða hefur litað USAID-málið og hefðu Trump og Musk alveg …
Upplýsingaóreiða hefur litað USAID-málið og hefðu Trump og Musk alveg mátt vanda sig betur og vera skýrari. Hitt er alveg ljóst að uppstokkun bandarísku stjórnsýslunnar er rétt að byrja og er almenningi mjög að skapi. AFP/Jim Watson

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Nýlega datt ég ofan í fyrirlestraröð Dorsey Armstrong um mýtur og goðsagnir miðalda. Armstrong, sem kennir miðaldabókmenntir við Purdue-háskóla, hefur sérstakan áhuga á Artúr konungi og þeim sögum sem hafa verið sagðar um hann allt fram til okkar tíma, en það má varla finna það mannsbarn sem ekki hefur heyrt minnst á þennan göfuga og djarfa konung, galdrakarlinn Merlín, drottninguna Gunnvöru, og auðvitað kempurnar Lanselot, Galahad og aðra riddara hringborðsins.

Í gegnum aldirnar hafa alls konar ævintýri spunnist í kringum Artúr og ekki alltaf verið gott samhengi á milli þeirra allra. Einföldustu hlutir, eins og t.d. sætafjöldinn við hringborðið, hefur rokkað frá 12 upp í mörg hundruð eftir því hvaða heimild er notuð.

Sú spurning sem Armstrong hefur hins vegar mestan áhuga á er hvort Artúr sé uppspuni frá rótum eða hafi verið til í raun og veru. Eftir mikið grúsk segir Armstrong það alveg ljóst að upplausnarástand hafi ríkt í Bretlandi eftir að Rómverjar yfirgáfu svæðið og margt sem bendi til að öflugur leiðtogi hafi risið til valda og tekist að verja heimamenn gegn árásum barbara. Mögulega hét hann Ambrosius Aurelianus, Emrys Wledig eða Riothamus, og sennilega var hann af virtum rómverskum ættum. Sama hvað maðurinn hét þá hefur hann verið allt annað en meðaljón: hann hefur þurft að vera gæddur miklum persónutöfrum til að fá menn á sitt band og hann hefur verið meiri háttar stríðsmaður, en hann hefur líka búið yfir þeim stjórnunarhæfileikum sem þarf til að hafa gott skipulag á samfélaginu.

Þessi merkilegi leiðtogi sem sagan af Artúri byggist á var greinilega réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma.

J.D. Vance er enginn Merlín, Melanía er engin Gunnvör, og harla ósennilegt að Trump hafi fundið Excalibur ofan í tjörn við golfvöllinn í Mar-a-Lago. Það má lengi deila um mannkosti Trumps og bresti, en hitt er ljóst að hann er réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma.

Með almenning á sínu bandi

Harkalegur niðurskurður Trumps hjá þróunarsamvinnustofnun Bandaríkjanna, USAID, hefur verið á milli tannanna á fólki undanfarna viku og málið allt einkennst af mikilli upplýsingaóreiðu.

Trump og Musk hefðu mátt vanda sig aðeins meira við upplýsingagjöfina og þeir gáfu á sér höggstað með því að vera ekki skýrari og færa jafnvel aðeins í stílinn í lýsingunum á þeim verkefnum USAID sem skera þurfti niður. Það er reyndar eðli bandarískra stjórnmála að menn þurfa að nota stuttar setningar og stór orð ef það á að heyrast í þeim í allri síbyljunni.

Auðvitað voru fjölmiðlar ekki lengi að kryfja málflutning Trumps og Musks lið fyrir lið og sökuðu þá um ýkjur og rangfærslur. Eftir stendur samt að verkefni USAID eru flest þess eðlis að hinn almenni bandaríski kjósandi hlýtur að spyrja hvers vegna skattfé er varið í þetta þegar koma þarf böndum á ríkisfjármálin og mörg brýnni verkefni heima fyrir virðast hafa fengið að sitja á hakanum.

Fjölmiðlar mættu alveg líka stað­reynda­tékka andstæðinga Trumps því að báðar fylkingar hafa átt sinn þátt í upplýsingaóreiðunni og hafa t.d. málsmetandi demókratar sett fram alls konar fjarstæðukenndar fullyrðingar og samsæriskenningar um hvað Trump og Musk gangi til.

En Trump veit nokkurn veginn við hvað hann þarf að etja og hann fer sínu fram sama hvað. Skoðana­kannanir sýna að hann hefur almennings­álitið með sér og viðhorfið er almennt þannig að Trump sé að gera nákvæmlega það sem kjósendur ætluðust til af honum: Það þarf hreinlega að hrista rækilega upp í kerfinu, grisja stjórnsýsluna vel og vandlega og taka upp ný og betri vinnubrögð. Eins og ástandið var orðið var ekki í boði að ætla að beita skurðhníf blíðlega til að snurfusa hér og þar; það þarf gröfu og valtara, og kannski nokkrar stangir af dínamíti.

Enginn venjulegur maður

Hvernig gerðist það annars að opinberir starfsmenn urðu ósnertanlegir? Er það vilji kjósenda að nær ómögulegt sé að hrófla við stjórnsýslunni og koma böndum á stofnanir sem eru eins og ríki í ríkinu og virðast ekki þurfa að svara fyrir verk sín?

Fræðimaðurinn og þjóðfélagsrýnirinn Bret Weinstein mætti í hljóðverið hjá Joe Rogan á dögunum og benti á þá áhugaverðu staðreynd að Trump stæði sterkar að vígi nú en ef hann hefði sigrað í kosningunum fyrir fjórum árum, einmitt vegna þess hve vel það kom í ljós í forsetatíð Bidens hvað bandaríska stjórnkerfið er rotið. Einhver undarlegur sjálftökubragur er á stjórnsýslunni allri og virðast þjóðarhagsmunir hálfgert aukaatriði.

Fyrst ég nefndi hirðina við Kamelot hér í innganginum þá komst Weinstein þannig að orði að frá því að Kennedy var ráðinn af dögum hefði það varla skipt nokkru máli hver sigraði í kosningum vestan­hafs, því það væri kerfið sem færi raunverulega með völdin. „Það sem við erum að sjá núna eru afleiðingar fyrstu alvöru kosninganna sem haldnar hafa verið í Bandaríkjunum síðan 1963. Kennedy var síðasti forsetinn sem ætlaði sér virkilega að breyta hlutunum til hagsbóta fyrir alla þjóðina.“

Weinstein lýsti stjórnmálum Bandaríkjanna þannig að undanfarna hálfa öld hefðu atkvæði kjósenda ekki haft neitt að segja því að völdin væru í höndum embættismanna sem enginn gat hróflað við. „Og þetta fyrirkomulag var búið að festa sig svo rækilega í sessi að það þurfti alveg einstakan mann til að uppræta það – mann eins og Donald Trump.“

„Og með einstaka menn sér til liðs. Ímyndaðu þér bara hvernig DOGE [hagræðingarátakið] gengi ef ekki væri fyrir Elon?“ bætti Rogan við.

Réttir menn, á réttum stað á réttum tíma, og samanburðurinn við riddara hringborðsins kannski ekki svo langsóttur.

Artúr, Bartlet eða Súpermann

Ég vil samt ekki að lesendur haldi að mér þyki Trump einhvers konar fyrirmyndarleiðtogi og frábær gæi.

Við eigum það reyndar til að bera þá stjórnmálamenn sem við sitjum uppi með saman við nýjar og gamlar goðsagnir, og auðvitað stenst enginn þann samanburð. Trump er ósköp mannlegur og auðvitað léttruglaður á sinn hátt.

Helst vildi ég að forseti Bandaríkjanna væri eins og Josiah Bartlet (Martin Sheen) í þáttaröðinni The West Wing: djúpvitur, falslaus og ekkert nema heilindin; Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði sem talar bæði þýsku og latínu reiprennandi. Þættirnir rökuðu til sín verðlaun­unum frá 1999 til 2006 og er leitun að betra sjónvarpsefni, en það má ekki gleyma að Bartlet er jafn raunverulegur og Súpermann.

Trump er með fjölmargar lausar skrúfur, eins og stjórnmálamenn yfirleitt. Ég hef stolist til að fylgjast aðeins með þingnefndarfundunum með ráðherraefnum Trumps undanfarnar vikur, og hefur það minnt mig vel á að þegar stjórn­málin eru skoðuð í nærmynd kemur í ljós að flestir þeir samferðamenn okkar sem tekst að komast til áhrifa í pólitík eru ekki endilega miklir snillingar, og gildir það bæði um demókrata og repúblikana: Sum þeirra virðast frekar vanstillt, og stundum eins og þau leggi sig fram við að misskilja og rangtúlka. Flestum þeirra held ég að veitti ekki af að bóka nokkra mánuði í musteri uppi í Himalajafjöllum og reyna þar að sætta frumsjálfið og yfirsjálfið – en kannski er það frumskilyrði fyrir því að vilja taka þátt í pólitík að vera ekki í sérstaklega góðu andlegu jafnvægi.

Vinnubrögðin hjá Trump eru harkaleg en það sem hann er að gera er samt rétt og þarft. Ég hugsa að þegar við lítum í baksýnisspegilinn, eftir nokkur ár, munum við öll sjá að það þurfti að brjóta kerfið niður og byggja eitthvað nýtt og betra. Mig grunar að það verði samhljómur um það á endanum að með því að koma böndum á ríkisútgjöldin og tæta upp ósnertanlega stjórnsýsluna hafi Trump tekist að forða Bandaríkjunum frá verulegum skakkaföllum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK