„Þessar fréttir frá stjórn Arion banka komu mér mjög á óvart og svona við fyrstu sýn er afar langsótt að þetta hljóti náð fyrir augum samkeppnisyfirvalda.“
Þetta segir Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans við tilkynningu stjórnar Arion banka sem ákvað á fundi sínum í gær að lýsa yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna félaganna.
Bréf þess efnis hefur verið sent til stjórnarformanns og bankastjóra Íslandsbanka.
„Þetta myndi skilja eftir tvo stóra banka og reyndar smærri fjármálastofnanir og það myndi ekki bara draga úr samkeppni á smásölumarkaði í þjónustu við fyrirtæki og heimili heldur myndi það líka þýða að millibankamarkaðurinn yrði mjög skrítinn,“ segir Gylfi.
Honum finnst afar ólíklegt að samruni Arion banka og Íslandsbanka standist mat fyrir Samkeppniseftirlitinu þó svo að hann hafi ekki kynnt sér málin til hlítar enda hafi hugmyndinni verið hent út í loftið í gær.
„Að óathuguðu máli finnst mér afar ólíklegt að þetta verði samþykkt,“ segir hann.
Spurður hver viðbrögð Íslandsbanka kunni að verða segir Gylfi:
„Ég þori nú svo sem ekki að reyna að svara fyrir hann en bankinn er í sérkennilegri stöðu út af eignarhaldinu sem er auðvitað ennþá að verulegu leyti í eigu ríkisins en stendur til að selja. Það er því frekar erfitt fyrir Íslandsbanka að taka þátt í svona umræðu meðan það ferli er í gangi.“