Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi skrifar:
Fjárfesting er áhugavert orð. Það segir í raun að verið sé að festa fjármuni í tilteknu verkefni. Það er gert í þeirri von að þeir fjármunir skili sér til baka, jafnvel með ávöxtun. Fjárfesting drífur efnahagslífið áfram og hagur okkar allra batnar. Nýlega heyrði ég þó talað um fjárfestingar í nokkuð neikvæðum tón. Formaður Samfylkingarinnar beindi þá spjótum að fjárfestingum í sjávarútvegi. Virtist hún álykta tvennt: annars vegar að þær sýndu að það væri svigrúm til aukinnar skattheimtu og hins vegar að fjárfestingar hefðu neikvæð áhrif á veiðigjald. Þetta eru hagfræðilegar málflutningsæfingar sem ekki hafa heyrst áður.
Ágæt rekstrarskilyrði í sjávarútvegi á umliðnum árum hafa verið grundvöllur þess að fjárfesting hefur verið í takti við þörf. Töluverð endurnýjun hefur orðið á skipaflotanum og búnaði um borð og fjárfesting í nýrri tækni hefur átt stóran þátt í að draga verulega úr kolefnisspori greinarinnar. Fjárfesting hefur því verið lykillinn að aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi og þar með auknum skatttekjum ríkissjóðs, en ekki öfugt.
Að þessu er ekki hægt að ganga vísu. Af opinberum tölum má greina að óvissa í rekstri síðustu ára, meðal annars vegna pólitískra sviptivinda, hefur leitt til þess að úr fjárfestingum hefur dregið. Á tímabilinu 2019-2023 var árleg nettó fjárfesting í fiskveiðum að meðaltali 13,7 milljarðar króna. Árið 2023 dró meðaltalið töluvert niður, en þá var nettó fjárfesting aðeins 4,3 milljarðar króna miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Þetta er of lítil fjárfesting, sé litið til aldurs skipaflotans. Árið 2024 var að líkindum sambærilegt og aðeins tvö stærri skip eru í smíðum og munu koma inn í flotann á næstu tveimur árum. Það hefur því harðnað á dalnum. Það ætti að vera tilefni til þess að staldra við þegar rætt er um svigrúm til skattahækkana í sjávarútvegi. Fjárfesting er ekki munaður, heldur nauðsynlegur þáttur í verðmætasköpun og samkeppnishæfni.
Formaðurinn veitti jafnframt afskriftum sérstaka athygli í aðdraganda kosninga. Afskriftir eru eðli máls samkvæmt hluti fjármagnsliða í rekstrarreikningi og hafa þar með áhrif á hagnað í fiskveiðum. Þar sem veiðigjald er 33% af hagnaði fiskveiða, þá virtist formaðurinn telja að ríkissjóður yrði af skatttekjum vegna þessa fjármagnsliðar. Þá lét formaðurinn einnig hafa eftir sér að sjávarútvegi, einum atvinnugreina, væri sérstaklega ívilnað í tekjuskattslögum með auknum heimildum til afskrifta. Það er rangt.
Fjölda atvinnugreina er heimilt að flýta fyrningu eigna með sambærilegum hætti eða meiri. Þetta kemur skýrt fram í 37. gr. tekjuskattslaga, sem æskilegt væri að formaðurinn kynnti sér. Hér má nefna eignir á borð við flugvélar, verksmiðjuvélar, iðnaðarvélar, leiðslukerfi og skrifstofutæki. Það er óásættanlegt að staðhæft sé að sjávarútvegur njóti einhverrar sérmeðferðar.
Samkvæmt lögum um veiðigjald skal miða við skattalegar fyrningar í reiknistofni gjaldsins, ekki bókhaldslegar fyrningar. Þetta eykur sveiflur í reiknistofni. Skattalegar fyrningar eru háar í upphafi en fara síðan hratt lækkandi, á meðan bókhaldslegar fyrningar eru jafnar og yfir lengri tíma. Veiðigjald verður því hærra þegar fyrningar lækka og þær klárast fyrr með hinni skattalegu leið. SFS hafa oftsinnis bent á þennan mun og augljós áhrif. Löggjafinn valdi hins vegar að nota skattalegar fyrningar þar sem upplýsingar um þær liggja fyrir í þeim gögnum sem skattyfirvöld vinna úr. Þótt þetta kunni að auka sveiflur í afkomu frá einu ári til annars, þá felst ekki í þessu nokkur ívilnun. Greiðslur gjaldsins færast einfaldlega til í tíma, en skila sér á endanum til ríkissjóðs.
Varanlegur útflutningsvöxtur er grundvöllur sjálfbærs hagvaxtar og lífskjarabóta. Fjárfestingar eru forsenda þessa. Það er mikill misskilningur ef formaður Samfylkingarinnar telur rétt að letja fjárfestingar til þess að fá hærri skatta. Það er þvert á móti verkefni stjórnvalda að örva fjárfestingar. Þannig verður verðmætasköpun meiri og kakan stækkuð öllum til hagsbóta.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.