„Áhugavert að skoða þetta“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri …
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka. Samsett mynd

Bankastjóri Íslandsbanka segir mörg tækifæri fólgin í hugsanlegum samruna við Arion banka. Þó verði að huga vel að samkeppnissjónarmiðum.

„Það er áhugavert að skoða þetta og augljóslega mjög mikil tækifæri sem fælust í svona samruna útfrá bæði hluthöfum og viðskiptavinum,“ segir Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, í samtali við mbl.is þegar hann var inntur eftir viðbrögðum um áhuga Arion banka á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna félaganna.

Bréf þess efnis var sent til Jóns Guðna og Lindu Jónsdóttur, stjórnarformanns Íslandsbanka, í gær.

Jón Guðni segir að á sama tíma verði að huga vel að samkeppnissjónarmiðum.

„Regluverkið og allur kostnaður í því hefur mikil áhrif og hlutfallslega meiri hérna þar sem við erum með þrjá mikilvæga kerfislega banka. En burtséð frá því eru tækifæri í því að minnka kostnaðinn við gullhúðun og öðru slíku,“ segir Jón Guðni við mbl.is.

Hefur verið skoðað oft

Kom þessi útspil Arion banka ykkur í opna skjöldu?

„Þetta er eitthvað sem hefur verið skoðað oft á síðustu árum og kemur í sjálfu sér okkur ekkert á óvart. Þetta er áhugavert og er bara í skoðun hjá okkur núna, sem er ekki komin langt á veg,“ segir Jón Guðni, sem átti fund með stjórn Íslandsbanka í gær.

Hann segir að það þurfi að vega og meta hvort farið verði viðræður við Samkeppniseftirlitið en næstu skrefin verði að fara vel yfir málið.

„Við reynum að vinna hratt og vel og ég geri ráð fyrir að við hittum forsvarsmenn Arion banka og heyrum hvað þeir hafi verið að undirbúa varðandi greiningar og annað slíkt.“

Mun SKE hleypa þessu í gegn?

mbl.is ræddi einnig við Gylfa Magnús­son, pró­fess­or í hag­fræði við Há­skóla Íslands, sem sagði það „afar lang­sótt að þetta hljóti náð fyr­ir aug­um sam­keppn­is­yf­ir­valda“.

Eftir stæðu tveir stórir bankar, auk smærri fjár­mála­stofn­an­a, sem myndi bæði bara draga úr sam­keppni og þýða að milli­banka­markaður­inn yrði „mjög skrít­inn“.

Hagnaður af rekstri Íslands­banka árið 2024 nam 24,2 millj­örðum króna sam­an­borið við 24,6 millj­arða króna árið á und­an. Arðsemi eig­in fjár var 10,9% á árs­grund­velli á síðasta ári en nam 11,3% árið 2023.

Hagnaður Ari­on banka var 26,1 millj­arður króna á ár­inu 2024, sam­an­borið við 25,7 millj­arða króna á ár­inu 2023. Arðsemi eig­in­fjár var 13,2%, sam­an­borið við 13,6% á ár­inu 2023. Hrein­ar þókn­ana­tekj­ur námu 15,4 mö.kr. á ár­inu og dróg­ust sam­an um 6,3% frá fyrra ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK