Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar segir í samtali við ViðskiptaMoggan kaup félagsins á indverska neta- og kaðlaframleiðandanum Kohinoor skapa fjölmörg sóknarfæri á nýja markaði.
„Ef litið er til fiskeldis í heiminum er laxeldi bara brot af heildareldi. Það er verið að framleiða alls konar fisk í sjó og vötnum og við erum með töluverð viðskipti við eldi við Miðjarðarhaf, Sádí-Arabíu og í Óman,“ svarar Hjörtur spurður um möguleg sóknarfæri.
„Þetta gefur okkur tækifæri til að sækja meira inn á þessa markaði og ekki síst að sækja inn á markaðinn í Síle. Það land er næststærsti framleiðandi á laxi á eftir Noregi og við höfum hingað til ekki einu sinni getað horft í þá átt vegna kostnaðar. Núna verðum við hins vegar með mjög góða stöðu til að selja á þann markað.“
Á síðasta ári harðnaði samkeppnin á mörkuðum og var því nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að auka samkeppnishæfni Hampiðjunnar. Kaupin á Kohinnor var því strategísk ákvörðun.
Þá sé mikill kostur að fjárfesta í framleiðslu á Indlandi að mati Hjartar, meðal annars með tilliti til stöðunnar í heimsmálunum. Bendir hann á að Indland sé mjög stórt hagkerfi, en íbúar eru nú um 1.400 milljónir og landið víðfeðmt, og utanríkisstefna landsins einkennist af hlutleysisstefnu. Þá sé nægt land til bygginga og byggingarkostnaður brot af því sem hann er í Litháen og á Íslandi, auk þess sem hráefniskostnaður sé langtum minni. Mestu munar þó um launakostnað.
Jafnframt hafi stutt við ákvörðunina um kaupin að á síðasta ári tókst að undirrita fríverslunarsamning milli Indlands og evrópsku fríverslunarsamtakanna, EFTA, sem Ísland á aðild að ásamt Sviss, Noregi og Liechtenstein. Urðu því viðskipti milli Indlands og þessa ríkja tollfrjáls.
Kohinoor er einn stærsti framleiðandi neta og kaðla á Indlandi með ársframleiðslu á um 14.300 tonnum af köðlum og netum og nam veltan í fyrra 26,2 milljónum evra, jafnvirði um 3,8 milljarða íslenskra króna.
Starfsstöðvar Kohinoor eru þrjár og eru um 375 kílómetra frá Múmbaí, tvær neta- og kaðlaverksmiðjur í Selu og netaverkstæði í Jalna. Félagið er einnig með skrifstofu í Aurangabad.
Starfsmenn fyrirtækisins eru rúmlega 700 og flatarmál verksmiðjubygginga er tæplega 60 þúsund fermetrar. Með kaupunum verða starfsmenn samstæðu Hampiðjunnar 2.700 talsins.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum.