Veikindakostnaður 1,5 ma.kr.

Formaður Viðskiptaráðs hélt erindi á Viðskiptaþingi.
Formaður Viðskiptaráðs hélt erindi á Viðskiptaþingi. Ljósmynd/Aðsend

Viðskiptaráð stóð fyrir Viðskiptaþingi í Borgarleikhúsinu síðastliðinn fimmtudag. Meðal fyrirlesara voru rithöfundurinn og fræðimaðurinn Johan Norberg, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og formaður Viðskiptaráðs, var einn þeirra sem fluttu erindi. Í ræðu sinni benti hann á að Evrópa hefði innleitt mun þyngra regluverk en Bandaríkin undanfarin ár. Í nýlegri skýrslu eftir Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu, er bent á íþyngjandi regluverk sem dragbít á samkeppnishæfni álfunnar.

„Í ræðu minni sagði ég að sannleikskorn væri í því orðatiltæki að Bandaríkin búi til nýjungar, Kína búi til eftirlíkingar og að Evrópa búi til reglugerðir. En Evrópusambandið virðist ætla að breyta um kúrs og hefur gefið fyrirheit um einföldun regluverks sem ég vona svo sannarlega að gangi eftir,“ segir Andri í samtali við Morgunblaðið.

Hann nefndi einnig í ræðu sinni sérstaklega umfangsmikið regluverk Evrópu í kringum gervigreind, en það hefur leitt til þess að framþróun þeirrar tækni fer nær eingöngu fram utan álfunnar. Eins nær regluverkið til fjölda sviða samfélagsins eins og t.d. viðskipta og umhverfismála.

„Tækifæri Íslands í þessu samhengi felast einna helst í virkari hagsmunagæslu gagnvart Evrópusambandinu til að tryggja að regluverk sem við innleiðum hér sé ekki of íþyngjandi. En einnig að sporna gegn gullhúðun,“ segir Andri.

Í erindi sínu benti Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs á að veikindarétturinn væri talsvert ríkari hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði og sagði miður að svo virtist sem slíkt byði oft upp á öfuga hvata. Hjá Kópavogsbæ var veikindakostnaður um 1,5 milljarðar króna á síðasta ári og hækkaði um 12% milli ára.

„Við sjáum það að veikindaprósentan er allt að þrefalt hærri hjá hinu opinbera, sem dæmi er meðalstarfsmaður hjá Reykjavík í einn mánuð frá vinnu sökum veikinda á hverju ári, rúmlega þrjár vikur í Kópavogi en bankastarfsmenn eru rúmlega viku frá störfum sökum veikinda,“ segir Ásdís í samtali við Morgunblaðið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK