Ríkislausn fyrir tilnefningarnefndir?

Andrés Jónsson stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Góðra samskipta.
Andrés Jónsson stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Góðra samskipta. mbl.is/Styrmir Kári

Andrés Jónsson stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Góðra samskipta skrifar: 

Um þessar mundir fer í hönd tími aðalfunda hjá skráðum félögum í Kauphöll Íslands. Flest fyrirtækin starfrækja í dag svokallaðar tilnefningarnefndir. Nefndirnar leggja mat á þá sem sækjast eftir að sitja í stjórn félaganna og gera tillögu til hluthafa um heppilega samsetningu stjórnarinnar fyrir komandi verkefni fyrirtækisins. Verklagið í þessu ferli hefur verið þannig að tilnefningarnefndir funda með forstjóra, stærstu hluthöfum og þeim sem sóst hafa eftir stjórnarsætum og leggja svo fram tillögu sína um jafn marga stjórnarmenn og sæti eiga í stjórn félagsins.

Á borði félaganna liggur nú bréf frá næststærsta lífeyrissjóði landsins, LIVE, þar sem komið er á framfæri gagnrýni á þetta verklag tilnefningarnefnda og félögin hvött til að endurskoða það í anda aukins gagnsæis og til að tryggja skilvirkari aðkomu hluthafa að vali stjórnarmanna.

Þessi gagnrýni er ekki ný en hefur orðið æ meira áberandi síðustu misseri. Síðastliðið vor birti framkvæmdastjóri stærsta lífeyrissjóðs landsins, LSR, skoðanagrein á Innherja undir yfirskriftinni „Fara tilnefningarnefndir með atkvæðisréttinn?“ Í greininni segir hún núverandi verklag leiða til þess að valdsvið tilnefningarnefnda „sé orðið óheppilega víðtækt“.

Á nýlegum opnum fundi Landssambands lífeyrissjóða um samskipti stjórna og hluthafa var einnig rætt um þessa gagnrýni og tekið undir að tímabært væri að endurskoða hlutverk tilnefningarnefnda. Kom fram í pallborðsumræðum að líklega hefðu íslensku félögin þarna gengið fulllangt í innleiðingu reglna á fjármálamarkaði eins og stundum áður og mikilvægt væri að þróa fyrirkomulagið í takti við þarfir markaðarins.

Þröstur Olav Sigurjónsson, sérfræðingur í stjórnarháttum fyrirtækja, fór á fundinum yfir að talsverður munur er á milli Íslands, Noregs og Danmerkur þegar kemur að stjórnarháttum og aðkomu hluthafa að félögum. Þá kom fram á fundinum það sjónarmið að endurskoða mætti leiðbeiningar um stjórnarhætti sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands.

Samkvæmt mínum heimildum eru það helst þessar leiðbeiningar sem vefjast fyrir tilnefningarnefndum varðandi það að koma til móts við áðurnefnda gagnrýni stærstu lífeyrissjóða landsins og margra annarra. Túlka þau leiðbeiningar með þeim hætti að þeim sé skylt að leggja fram tillögu með jafn mörgum stjórnarmönnum og eru í stjórn félagsins sem innihaldi einungis þá sem þau telja hæfasta. Þetta er að margra mati þröng túlkun.

Þurfi tilnefningarnefndirnar einhverja formlega átyllu til að breyta verklagi sínu þá vil ég benda þeim á að ríkisvaldið hefur nýverið breytt lögum og reglugerðum um kjör í stjórnir stærstu ríkisfyrirtækja landsins. Breytingin er á þann veg að sérstök valnefnd skuli leggja til við ráðherra tvo valkosti í hvert stjórnarsæti ríkisbanka, Landsvirkjunar, Landsnets, Isavia og Íslandspósts.

Þarna er um framfaraskref að ræða sem væntanlega kemur í fyrsta sinn til framkvæmda í vor. Ég fullyrði að hægt sé að finna tvo hæfa einstaklinga sem eru tilbúnir að gefa kost á sér í hvert stjórnarsæti í flestum skráðum félögum ef það er hið almenna verklag.

Það verði þar af leiðandi ekki jafn mikið vandamál og nú að þau dragi framboð sín til baka þegar þeim er gert ljóst að þau séu ekki hluti af tillögu tilnefningarnefnda. Þau félög sem vilja koma til móts við sjónarmið hluthafa um aukið gegnsæi geta því vísað til þessa fordæmis ríkisins þegar þau leggja fram tíu álitlega kosti í fimm stjórnarsæti félagsins á næsta aðalfundi.

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK