Líklegt er að ríkisstjórnin þurfi að fresta frumvarpi um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka vegna hugsanlegs samruna bankans við Arion banka.
Þetta er mat Nönnu Margrétar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Miðflokksins og varaformanns efnahags- og viðskiptanefndar.
Ríkisstjórnin stefnir að því að ljúka sölu Íslandsbanka á yfirstandandi vorþingi. Salan á að fara fram með útboði þar sem almenningur hefur forgang.
Nanna Margrét segir að það þurfi að tryggja að ríkissjóður fái sem hæst verð fyrir bréfin.
„Við erum ekki fara selja bankann ef rétt reynist að þetta skili verulegri hagræðingu og þar af leiðandi kannski hærra verði fyrir bréfin. Þessi umræða þarf að klárast áður en tekin er ákvörðun um að hefja söluferlið. Í öðru lagi blasir líka við að það er allskostar óvíst að Samkeppniseftirlitið heimili samrunann,“ segir Nanna Margrét í samtali við mbl.is.
„Ef þetta gengur upp þá erum við kannski með verðmætari bréf eftir sameiningu og þá er ekkert vit í að selja bankann fyrr en eftir það,“ segir hún enn fremur.
Nanna Margrét gerir ráð fyrir því að málið verði rætt á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þegar afstaða Íslandsbanka um málið liggur fyrir.