Helgi S. Gunnarsson, byggingarverkfræðingur og fyrrverandi forstjóri Heima/Regins, telur að mikil eftirspurn verði eftir atvinnu- og verslunarhúsnæði á Korputúni. Meðal annars sé farið að þrengja að stærra atvinnuhúsnæði í eldri hverfum.
Fjallað var um áformin á Korputúni í Morgunblaðinu sl. fimmtudag. Svæðið er á mörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur og þar er áformað að byggja um 90 þúsund fermetra af verslunar- og atvinnuhúsnæði.
„Ég þekki svæðið vel og hef fylgst með þessu verkefni lengi. Mér finnst þetta gott framtak og tel að þetta sé það sem vanti á markaðinn vegna þess að stór fyrirtæki geta komið sér fyrir og haft nóg pláss í stóru húsnæði. Svæðið er líka mjög vel tengt öllum aðkomuleiðum. Það er ekki mikið um góðar atvinnuhúsalóðir á höfuðborgarsvæðinu. Þær eru oft mjög aðþrengdar og fyrirtæki eru að fara inn á mjög aðþrengdar lóðir eins og gerðist í græna gímaldinu.“
Netverslun hefur verið í sókn og sagt að hefðbundin verslun eigi því undir högg að sækja. Er það kannski óþarfa svartsýni?
„Já. Það tel ég að sé óþarfa svartsýni. Hins vegar verða ekki byggðar fleiri stórar verslunarmiðstöðvar eins og Kringlan og Smáralind á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Helgi, en Smáralind var hluti af eignasafni Regins (nú Heima) þegar hann var forstjóri félagsins.
„Kringlan og Smáralind eru í yfirburðastöðu hvað varðar staðsetningu og úrval. Það þarf hins vegar minna verslunarhúsnæði og svona kjarna eins og stendur til að reisa á Korputúni. Sá kjarni verður mjög sterkur, enda mikil byggð allt í kring og enn meiri uppbygging fram undan, þ.m.t. á Blikastaðalandi og í Mosfellsbæ. Þannig að mér finnst þetta snjöll viðskiptahugmynd hjá Reitum. Ég hef trú á að þetta muni ganga vel,“ segir Helgi, sem segist aðspurður telja það einnig skapa eftirspurn að atvinnuhúsnæði sé að víkja fyrir íbúðum á þéttingarreitum. Þá vanti lagerhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu en í Korputúni verði hægt að hafa slíkt húsnæði við hlið verslana.
Greinin birtist í Morgunblaðinu á laugardag.