Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis segir að fréttir um áhuga stjórnar Arion banka um að hefja viðræður við Íslandsbanka um samruna félaganna séu áhugaverðar en komi um leið á óvart.
„Mér finnst tímasetningin sérstök þar sem fjármálaráðuneytið er að undirbúa sölu ríkisins á eignarhlut sínum í Íslandsbanka,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, við mbl.is.
Arna segir að frumvarp um sölu ríkisins í eignarhlut þess í Íslandsbanka sé ekki komið fram og ekki fyrir nefndina en vonar að það komi í næstu viku.
„Ég verð alltaf pínulítið tortryggin þegar rætt er um svona samruna og hann eigi að skila sér svo mikið til landsmanna. Það kemur í hlut Samkeppniseftirlitsins að fara yfir þetta mál og við verðum að sjá hvað það segir en það er mikilvægt í mínum huga að það ríki samkeppni á markaði,“ segir hún.
Arna Lára segist ekki vilja fella neina dóma um málið en segist spyrja sig hvað liggi að baki. Hún segist hafa efasemdir um að ávinningur samruna Arion banka og Íslandsbanka rati í vasa neytenda.
Spurð hvort þetta mál verði tekið upp á fundi efnahags- og viðskiptanefndar segir hún að það verði örugglega rætt og sérstaklega í samhengi við sölu ríkisins á eignarhlutanum í Íslandsbanka.