Rekstrarniðurstaða flugfélagsins Play fyrir árið 2024 var neikvæð um 30,5 milljónir Bandaríkjadollara eða 4,2 milljarða króna, borið saman við 23,0 milljóna Bandaríkjadollara rekstrartap árið 2023, einkum vegna örlítið lægri einingatekna.
Heildartap á fjórða ársfjórðungi nam 39,8 milljónum Bandaríkjadollara eða tæpum 5,5 milljörðum íslenskra króna. Bókfært heildartap fyrir árið 2024 var 66,0 milljónir Bandaríkjadollara eða 9,1 milljarði íslenskra króna, þar af eru 24,1 milljón Bandaríkjadollara vegna niðurfærslu á yfirfæranlegu skattalegu tapi.
Eigið fé flugfélagsins Play í lok árs 2024 var neikvætt um 33,1 milljón Bandaríkjadollara eða um 4,6 milljörðum íslenskra króna, en þar af eru 24,1 milljón vegna afskriftar á skattainneign. Ef litið er framhjá þeirri niðurfærslu er eigið fé félagsins neikvætt um 9 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur 1,2 milljörðum íslenskra króna. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok ársins 2024 var -9,1% en það var 0,4% í lok árs 2023.
Í uppgjörinu kemur fram að í ljósi umfangsmikilla breytinga á viðskiptalíkani félagsins og í samræmi við endurskoðunarstaðalinn IAS 12 ákváðu stjórnendur að taka varfærna ákvörðun um viðurkenningu á frestuðum skatteignum tengdum yfirfæranlegu skattalegu tapi. Þrátt fyrir að félagið hafi áfram umtalsvert skattalegt tap til nýtingar, og sé sannfært um að það verði nýtt í framtíðinni, hefur umrædd skattaeign verið færð niður vegna óvissu um að skattalegt tap félagsins verði nýtt að fullu á móti hagnaði næstu ára.
Lausafjárstaða félagsins við lok árs 2024 var 23,6 milljónir Bandaríkjadollara eða 3,3 milljarðar króna, borið saman við 21,6 milljónir Bandaríkjadollara árið 2023. Lausfjárstaðan er því betri en árið á undan og rekstrarhorfur að sama skapi jafnframt betri að því er fram kemur í uppgjörstilkynningu. Þá kemur fram að ekki sé hægt að útiloka að markaðsaðstæður breytist og að til álita komi að auka hlutafé.
Í ViðskiptaMogganum sem kemur út næstkomandi miðvikudag er ítarlegt viðtal við Einar Örn Ólafsson um uppgjör félagsins, eiginfjárstöðuna og möguleikann á aukningu hlutafjár hjá félaginu.
Haft er eftir Einari Erni Ólafssyni forstjóra Play í uppgjörstilkynningu að enn sé ekki hægt að taka jákvæð áhrif nýs viðskiptalíkans með í reikninginn við endurskoðun á ársreikningi PLAY.
„Í ábendingu endurskoðanda um rekstrarhæfi félagsins í þó fyrirvaralausri áritun á ársreikningi ber því að hafa í huga að þar eru þau áhrif ekki komin fram. Við trúum því hins vegar staðfastlega að breytingarnar muni bæta fjárhag félagsins til muna á árinu 2025,” er haft eftir Einari Erni og enn fremur kemur fram að Paly muni leitast við að draga úr kostnaði á árinu.
„Við höfum þegar gripið til aðgerða sem stefnt er að skili 15 – 20% hagræðingu í yfirbyggingu á yfirstandandi ári. Við höldum áfram að leita nýrra leiða til að bæta þjónustu okkar og veita aðhald á kostnaðarhliðinni. Með hærri tekjur og lægri kostnað sjáum við fram á mikinn rekstrarbata,” er haft eftir Einari Erni.
Play býst við að fjárhagsniðurstaða fyrsta ársfjórðungs verði svipuð og í fyrra, þrátt fyrir að páskarnir séu að þessu sinni í öðrum ársfjórðungi. Reiknað er með betri rekstrarniðurstöðu á öllum öðrum ársfjórðungum.