Alexander J. Hjálmarsson hjá Akkri – Greiningu og ráðgjöf hefur gefið út fyrstu viðbrögð við þeirri hugmynd Arion banka að sameinast Íslandsbanka. Ítarlega er farið yfir kosti og galla mögulegs samruna.
Áhugavert er að sjá að í greiningunni bendir Alexander á að líklega sé hægt að fækka starfsmönnum töluvert eða sem nemur um 435-685 ársverkum. Nefnir hann að bankarekstur sé mjög skalanlegur og því augljóst að sameinaður banki geti verið rekinn á töluvert færri starfsmönnum en þeir gera hvor í sínu lagi.
Samtals voru Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn með 2.446 ársverk á árinu 2024. Arion banki með flest eða 836, Landsbankinn með 811 og Íslandsbanki með 799.
Í greiningunni er gert ráð fyrir að kostnaður við hvert ársverk sé um 20-22 milljónir króna, ef tekið er mið af tölum fyrir síðasta ár. Möguleg samlegð í gegnum launakostnað gæti því legið á bilinu 8-14 milljarðar króna. Tölulega er þetta jákvætt en ljóst að margir þyrftu að taka pokann sinn og færast í önnur störf. mj@mbl.is