Um áramótin bættust þau Hildur Leifsdóttir og Peter Dalmay við eigendahóp Markarinnar lögmannsstofu hf.
Fram kemur tilkynningu frá Mörkinni að Hildur og Peter hafi í árabil starfað hjá stofunni.
Hildur er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá HÍ 2007 og meistaragráðu árið 2010. Hildur hefur starfað hjá Mörkinni frá árinu 2013 en þar áður vann hún hjá Samkeppniseftirlitinu. Hún situr í kærunefnd vöru- og þjónustukaupa auk þess að hafa sinnt kennslu í neytendarétti við lagadeild Háskóla Íslands. Helstu starfssvið hennar eru samkeppnisréttur, neytendaréttur, stjórnsýsluréttur og félagaréttur.
Peter er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hann útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og meistaragráðu árið 2016. Eftir útskrift starfaði Peter hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og EFTA-dómstólnum en gekk eftir það til liðs við Mörkina. Þar hefur hefur hann starfað síðan. Peter starfaði líka sem aðstoðarmaður Hæstaréttardómara í 18 mánuði. Helstu starfssvið hans eru samkeppnisréttur, EES-réttur, útboðsréttur og persónuvernd.