ViðskiptaMogginn leitaði til Alexanders J. Hjálmarssonar hjá Akkri – Greiningu og ráðgjöf til að fara yfir mögulegan samruna Arion banka og Íslandsbanka.
Við fyrstu sýn virðist einfalda svarið við samruna bankanna vera að það gangi einfaldlega ekki upp, enda minnkar samkeppni á markaði. Nokkuð sem fjármálaráðherra hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum og vakið hefur athygli.
Slíkur samruni getur hins vegar bætt hag neytenda þrátt fyrir að samkeppni minnki samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins bendir á þetta í leiðbeiningum sínum um lárétta samruna þar sem kemur fram að í ákveðnum tilfellum megi réttlæta samruna þrátt fyrir samkeppnishömlur þar sem hagkvæmni sem hlýst af samruna vegur upp neikvæðu áhrifin af samþjöppun. Vísaði bankastjóri Arion til þessa í bréfi til Íslandsbanka.
Að mati Alexanders gæti kostnaðarsamlegð numið 13-24 milljörðum á ársgrundvelli. Þar liggja að baki um 8-14 milljarðar vegna lægri launakostnaðar og 5-10 milljarðar í gegnum annan rekstrarkostnað.
Alexander tók saman lista yfir stærstu banka Norðurlandanna og hvar íslensku bankarnir eru í þeim samanburði. Eins og sést á myndinni væri sameinaður banki í 12. sæti miðað við stærð efnahags. Vert er að benda á að þetta eru einungis bankar á Norðurlöndunum og ef bönkum á meginlandi Evrópu er bætt við myndina kemur íslenska krílið enn betur í ljós.
Annað sem Alexander bendir á er að allir þrír íslensku bankarnir eru skilgreindir sem kerfislega mikilvægir. Minnsti bankinn, fyrir utan þá íslensku, sem er skilgreindur sem kerfislega mikilvægur er Sydbank í Danmörku en efnahagur hans er tvöfalt stærri en Landsbankans.
ViðskiptaMogginn leitaði jafnframt til Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, sem benti á að umræða hans um regluverk snerist einkum um evrópska regluverkið og hve íþyngjandi það sé fyrir lítil fjármálafyrirtæki sem lúta einnig séríslenskum reglur og álögum. Benedikt var spurður hvort það væri raunveruleg alvara á bak við bréf stjórnar eða hvort frekar ætti að líta á þetta sem ábendingu til ráðamanna. Svar Benedikts var afdráttarlaust: „Að sjálfsögðu er full alvara á bak við þessa tilkynningu. Það er ekki léttvæg ákvörðun að senda hana út og stjórnin telur þetta mögulegt.“
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.