„Afkoma okkar var ekki góð"

Einar Örn Ólafsson forstjóri Play segir að ekki sé þörf …
Einar Örn Ólafsson forstjóri Play segir að ekki sé þörf á hlutafjáraukningu eins og sakir standa nú hjá félaginu. Morgunblaðið/Unnur Karen

Rekstrarniðurstaða Play fyrir síðasta ár var ekki í takt við væntingar að sögn Einars Arnar Ólafssonar forstjóra félagsins. Hann er þó bjartsýnn á viðsnúning í rekstrinum á þessu ári.

Rekstrarniðurstaða flugfélagsins Play fyrir árið 2024 var neikvæð um 30,5 milljónir bandaríkjadala eða 4,2 milljarða króna, borið saman við 23,0 milljóna bandaríkjadala rekstrartap árið 2023, einkum vegna örlítið lægri einingatekna.

Heildartap á fjórða ársfjórðungi nam 39,8 milljónum bandaríkjadala eða tæpum 5,5 milljörðum íslenskra króna. Bókfært heildartap fyrir árið 2024 var 66,0 milljónir bandaríkjadala eða 9,1 milljarður íslenskra króna, þar af er 24,1 milljón bandaríkjadala vegna niðurfærslu á yfirfæranlegu skattalegu tapi.

Heildartekjur á árinu 2024 voru 292,2 milljónir bandaríkjadala eða 40,3 milljarðar króna, samanborið við 281,8 milljónir bandaríkjadala 2023. Þessi aukning er einkum tilkomin vegna aukins sætaframboðs á árinu. Hliðartekjur á árinu 2024 voru 90,3 milljónir bandaríkjadala, borið saman við 82,6 milljónir bandaríkjadala árið 2023.

Farþegatekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra, eða svokallað RASK, fyrir árið 2024 var 4,9 bandaríkjasent, borið saman við 5,0 sent árið 2023.*

Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra CASK á árinu 2024 var 5,6 sent, og stóð í stað frá fyrra ári.

Lausafjárstaða félagsins við lok árs 2024 var 23,6 milljónir bandaríkjadala eða 3,3 milljarðar króna, borið saman við 21,6 milljónir bandaríkjadala árið 2023. Lausfjárstaðan er því betri en árið á undan og rekstrarhorfur að sama skapi betri að því er fram kemur í uppgjörstilkynningu.

Einar Örn segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fjórði ársfjórðungur hafi þó verið í takt við þær væntingar sem gefnar voru út í lok þriðja ársfjórðungs.

„Ég ætla ekki að draga fjöður yfir það að afkoma okkar var ekki góð. Við sáum í hvað stefndi í sumar og boðuðum þess vegna breytt viðskiptalíkan. Frá því við gerðum það hafa hlutirnir gengið samkvæmt áætlun, það hefur orðið viðsnúningur og ég er mjög bjartsýnn á framhaldið,“ segir Einar.

Hann bendir á að enn sé ekki hægt að taka jákvæð áhrif nýs viðskiptalíkans með í reikninginn við endurskoðun á ársreikningi PLAY.

„Í ábendingu endurskoðanda um rekstrarhæfi félagsins í þó fyrirvaralausri áritun á ársreikningi ber því að hafa í huga að þar eru þau áhrif ekki komin fram. Eins og ég segi sjáum við að breytingarnar muni bæta fjárhag félagsins til muna á árinu 2025,“ segir Einar Örn.

Hann segir mikilvægt að skýra þýðingu áritunar endurskoðandans.

„Þetta þýðir aðeins að stjórn Play gerir sér grein fyrir að staða félagsins er þannig að ef aðstæður þróast til verri vegar kann að vera rétt að auka fjárhagslegan styrk félagsins. Það er aðeins það sem hún þýðir,“ segir Einar.

Play hefur gert samkomulag við evrópskt flugfélag um leigu á þremur flugvélum Play en vill ekki tilgreina félagið að svo stöddu. Verkefnið mun hefjast í vor og standa út árið 2027.

Greinina í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK