Bankarnir litlir í samanburði við Norðurlönd

Arion banki hefur lýst yfir áhuga á að reyna samruna …
Arion banki hefur lýst yfir áhuga á að reyna samruna við Íslandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans

Bankastjóri Arion banka sendi bréf, fyrir hönd stjórnar bankans, seint síðasta föstudag þar sem lýst er yfir vilja til að sameinast Íslandsbanka. Sá svaraði skömmu síðar áhugasamur. Augljóslega hefur Íslandsbanki vitað að þetta bréf Arion væri að koma.

Tímasetningin er heldur ekki tilviljun enda ríkisstjórnin sama dag að tilkynna hvernig staðið verði að sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Tilboðsbækurnar þrjár kynntar þar sem almenningur nýtur forgangs við úthlutun. Að sögn fjármálaráðuneytisins mun hlutlægni, hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi ráða ríkjum. Merkilegt að ekki hafi verið hægt að setja fram fleiri gildishlaðin orð í yfirlýsingu ráðuneytisins. Hefði kannski getað bent á að nú er salan framkvæmd með Ingu Sæland í ríkisstjórn. Áður hafði hún sett á stefnu eldhúsflokksins að selja ekki Íslandsbanka, stóð stolt á móti því síðast en er nú í þægilegum ráðherrastól.

Tímasetning Arion er úthugsuð þó hún virðist koma flestum á óvart. Tilkynningin er orðuð sem hvöss ábending til ríkisins en ekki endilega sem eiginleg viðskiptaleg hugmynd. Bankastjóri Arion bendir á hinar ýmsu séríslensku reglur, hærri eiginfjárkröfur, skatta og álögur sem auka kostnað bankanna, svokallað Íslandsálag. Því til viðbótar bætast við ýmsar reglugerðir frá Evrópusambandinu eins og um sjálfbærni og flokkun, sem allar auka kostnað.

Bankastjórinn nefnir síðan sérstaklega í bréfi sínu að hann sé tilbúinn að vinna með Samkeppniseftirlitinu til að tryggja að 5 milljarðar króna, að lágmarki, af þeim árlega sparnaði sem komi til með að myndast við samrunann skili sér til neytenda á ári hverju. Það séu 50 milljarðar hvorki meira né minna á 10 árum, skrifar bankastjórinn. Af hverju benti hann ekki á að það væru 500 milljarðar á 100 árum? Það vita allir að slíkur samningur verður aldrei gerður og Samkeppniseftirlitið ekki á nokkurn hátt í stakk búið til að gera slíkan samning. Þetta veit líka bankastjóri Arion. Ein helsta hagræðingin er fólgin í því að segja upp fleiri hundruð bankastarfsmönnum en það er viðkvæmara mál.

Bankastjórinn vísar einnig til þess að vaxtaumhverfi á Íslandi yrði líklega betra með sameinuðum banka þar sem fjármögnun erlendis yrði betri. Það er ólíklegt því bankarnir flokkast áfram sem íslenskir og verða enn litlir í samanburði við banka á Norðurlöndunum eins og kemur fram í forsíðufrétt ViðskiptaMoggans. Til þess að breyta því þyrftu þeir að starfa fyrir utan Ísland, áhætta þeirra og rekstur þannig dreifðari. Þá er komið að Íslandsálaginu aftur enda fór illa síðast.

Það sem vekur athygli er að bankastjóri Arion gengisfellir tilboð sitt nokkuð með greinaskrifum sínum strax daginn eftir. Tilboðið virðist helst gert til að fylgja eftir greinaskrifum hans um Íslandsálagið og reyna að hrista upp í stjórnmálamönnunum, ekki sé allt með felldu varðandi álögur á bankakerfið. Bankastjórinn ítrekar hins vegar hér í ViðskiptaMogganum að full alvara liggi að baki tilboðinu.

Fjármálaráðherra var hins vegar ekki lengi að lýsa því yfir að þetta breyti engu um fyrirætlanir ríkisins að selja Íslandsbanka og samruni sé ekki góður fyrir samkeppni. Forsætisráðherra gekk enn lengra og virtist slá þetta alfarið útaf borðinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK