Play hefur verið athugunarmerkt hjá Kauphöllinni. Vísað er til tilkynningar þar sem fram koma athugasemdir endurskoðanda í ársreikningi félagsins fyrir 2024 sem birtur var síðasta mánudag. Þar kemur fram að vafi sé um áframhaldandi rekstrarhæfi útgefanda (e. going concern).
Fram kemur að athugunarmerkingin sé framkvæmd með vísan í ákvæði 4.1.1. (f) í reglubók Nasdaq fyrir skráð félög á norræna aðalmarkaðnum. Í því ákvæði er vísað til óvissu um fjárhagsstöðu félags.
Kauphöllin sendi einnig út athugunarmerkingu vegna Play á síðasta ári en á þeim tíma var félagið skráð á First North vaxtarmarkaðinn. Play færði sig yfir á aðalmarkaðinn í ágúst í fyrra.
Í viðtali við ViðskiptaMoggann, sem kom út í morgun, sagði Einar Örn Ólafsson forstjóri Play að enn sé ekki hægt að taka jákvæð áhrif nýs viðskiptalíkans með í reikninginn við endurskoðun á ársreikningi Play.
„Í ábendingu endurskoðanda um rekstrarhæfi félagsins, í þó fyrirvaralausri áritun á ársreikningi, ber því að hafa í huga að þar eru þau áhrif ekki komin fram. Eins og ég segi sjáum við að breytingarnar muni bæta fjárhag félagsins til muna á árinu 2025,“ segir Einar Örn.
Hann segir mikilvægt að skýra þýðingu áritunar endurskoðandans.
„Þetta þýðir aðeins að stjórn Play gerir sér grein fyrir að staða félagsins er þannig að ef aðstæður þróast til verri vegar kann að vera rétt að auka fjárhagslegan styrk félagsins. Það er aðeins það sem hún þýðir,“ segir Einar Örn.
Miklar sveiflur hafa verið á gengi bréfa félagsins en frá ársbyrjun hefur gengi félagsins lækkað um 7,5%. Ef litið er til síðastliðins mánuðar hefur gengi félagsins hins vegar lækkað um 21%. Í dag lækkaði gengi félagsins um 7,5% í litlum viðskiptum.