Reynslan skilaði sér heim

Sigurður Svavarsson segir að eitt af því sem er þegar …
Sigurður Svavarsson segir að eitt af því sem er þegar farið að breytast sé leitarhegðun á netinu. Morgunblaðið/Eyþór

Sigurður Svansson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Sahara, er fluttur heim til Íslands eftir þriggja ára víking í Orlando í Flórída í Bandaríkjunum. „Ég flutti út með alla fjölskylduna. Markmiðið var að koma á fót fyrsta útibúi Sahara á erlendri grundu og kynnast markaðinum. Á þessum þremur árum byggði ég upp teymi og kynnti þjónustu Sahara þarna úti en sinnti líka íslenskum verkefnum í fjarvinnu,“ segir Sigurður í samtali við ViðskiptaMoggann.

Spurður nánar um ástæðu útrásarinnar segir Sigurður að hún endurspegli metnað fyrirtækisins. „Við vorum búin að ná ágætri fótfestu á Íslandi og orðin vel þekkt fyrir það sem við stöndum fyrir: þunga áherslu á stafræna markaðssetningu í bland við hefðbundna auglýsingagerð. Við höfðum unnið að erlendri markaðssetningu fyrir mörg íslensk fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustunni, og í gegnum þá vinnu sáum við að við ættum fullt erindi á erlendan markað. Þetta var eitthvað sem hafði blundað lengi í okkur.“

Hann segir að margir hafi talið hann vera kominn með mikilmennskubrjálæði að halda að Sahara gæti „meikað það“ í stóru Ameríku, eins og Sigurður orðar það. „Ég var vel meðvitaður um að þetta yrði snúið, enda kom það líka á daginn. Þarna var maður að byrja frá grunni og hefja harkið upp á nýtt.“

Fjórir starfsmenn vinna í Orlando núna og útibúið gengur vel. „Við erum búin að koma okkur vel fyrir og skiljum betur hvernig allt virkar en við erum með keppnisskap og viljum sjá verkefnið blómstra enn frekar.”

Sömu lögmál

Hann segir aðspurður að sömu lögmál virki í Bandaríkjunum og hér heima. „Þetta snýst um að kynnast fólki, mæta á viðburði, kynna sig á samfélagsmiðlum, mynda tengsl og skila af sér góðri þjónustu.“ Sigurður segir helsta muninn á Íslandi og Bandaríkjunum vera þann að úti sé allt fastara í forminu á meðan Íslendingar séu kvikir og lausnamiðaðir. „Ég hef fengið þau ummæli þarna úti að það sé mikil stemning að vinna með Íslendingum. Það sé kraftur í okkur. Við flækjum málin ekki um of heldur keyrum af stað. Við lögðum mikið í fyrstu verkefnin til að það myndi spyrjast fljótt út að við veittum fyrirmyndarþjónustu og skiluðum góðri vinnu,“ segir Sigurður en ákveðið var að leggja út net fyrir fyrirtæki í þremur geirum: ferðaþjónustu, netverslun og í sprotasamfélaginu.

Spurður að því hvort Sahara njóti einhverrar sérstöðu á Bandaríkjamarkaði segir Sigurður að úti séu fjöldamörg góð auglýsingafyrirtæki. En þegar komi að stafrænni markaðssetningu séu mörg fyrirtækin með afmarkaðri þjónustu en Sahara. „Fyrirtækin sérhæfa sig gjarnan, eru t.d. bara í auglýsingum á samfélagsmiðlum eða eingöngu Google-auglýsingum svo dæmi séu tekin, á meðan við erum með 360 gráða nálgun. Það eru kostir og gallar við bæði módel.“

Hafa breytt móðurfyrirtækinu

Sigurður segir það hafa verið lærdómsríkt fyrir Sahara, sem er 28 manna fyrirtæki, að hasla sér völl í Bandaríkjunum. Reynslan hafi skilað sér heim. „Við höfum breytt móðurfyrirtækinu alveg helling á þessum þremur árum. Við erum komin með traust til að vinna að stórum umfangsmiklum verkefnum fyrir öflug fyrirtæki sem snerta á 360° markaðsstarfi.“

Um væntingar fyrir næstu skref í Orlando segir Sigurður að Sahara haldi ótrautt áfram. „Ef okkur tekst að festa okkur betur í sessi er það gríðarlega jákvætt, þó að aðalstarfsemin sé og verði áfram hér heima. Við þurfum að standa vörð um þann kjarna.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK