Samtök iðnaðarins kynntu á dögunum skýrslu sem fjallaði um innviðaskuld á Íslandi. Gestur í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Rætt var um innviðaskuld Íslands, orkumál og fasteignamarkaðinn.
Sigurður bendir á í þættinum að staða innviðaskuldar hafi versnað svo um munar frá því að Samtök iðnaðarins létu taka síðustu skýrslu saman.
Uppsöfnuð viðhaldsskuld í innviðum nemur nú um 680 milljörðum króna en í síðustu skýrslu sem gefin var út árið 2021 nam hún 420 milljörðum króna.
„Staðan er að versna og við sjáum talsverða hækkun frá síðustu skýrslu. Þetta er hærra hlutfall af landsframleiðslu heldur en áður, en þetta er um 15% af landsframleiðslu sem skuldin nemur,“ segir Sigurður.
Hann segir að úrbætur á vegakerfinu séu brýnastar en þar er skuldin langmest.
„Uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu nálgast 300 milljarða og hækkar talsvert frá því sem fyrir var,“ segir Sigurður.
Hann nefnir að viðhaldsþörf fasteigna sé einnig brýn og stjórnvöld þurfi að gefa henni gaum.
„Við könnumst við fréttir á undanförnum árum um að loka verði heilu leikskólunum eða skólanum því ráðast þarf í endurbætur án mikils fyrirvara því viðhaldi hefur ekki verið sinnt,“ segir Sigurður.