Eigið fé flugfélagsins Play í lok árs 2024 var neikvætt um 33,1 milljón bandaríkjadala eða um 4,6 milljarða íslenskra króna, en þar af er 24,1 milljón vegna afskriftar á skattainneign. Ef litið er fram hjá þeirri niðurfærslu er eigið fé félagsins neikvætt um 9 milljónir bandaríkjadala eða sem nemur 1,2 milljörðum íslenskra króna. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok ársins 2024 var -9,1% en það var 0,4% í lok árs 2023.
Í uppgjörstilkynningu er tilgreint að algengt sé að flugfélög séu með neikvætt eigið fé, t.d. hafa flugfélög á borð við Wizzair, American Airlines, Delta og Air Canada öll á síðustu árum verið með neikvætt eigið fé en engu að síður staðið undir stöðugum flugrekstri.
Í uppgjörinu kemur fram að í ljósi umfangsmikilla breytinga á viðskiptalíkani Play og í samræmi við endurskoðunarstaðalinn IAS 12 ákváðu stjórnendur að taka varfærna ákvörðun um viðurkenningu á frestuðum skatteignum tengdum yfirfæranlegu skattalegu tapi. Þrátt fyrir að félagið hafi áfram umtalsvert skattalegt tap til nýtingar, og sé sannfært um að það verði nýtt í framtíðinni, hefur umrædd skattaeign verið færð niður vegna óvissu um að skattalegt tap félagsins verði nýtt að fullu á móti hagnaði næstu ára.
Spurður út í eiginfjárstöðuna segir Einar að það sé rétt að hún sé lág, sama á hvernig á málið er litið.
„Við höfum séð lága eiginfjárstöðu hjá hinum ýmsu flugfélögum að undanförnu. Þessari stöðu verður ekki snúið við hjá okkur nema yfir örlítið lengra tímabil eða með því að auka hlutafé,“ segir Einar og bætir því við að það sé ekki sérstakt áhyggjuefni.
Spurður hver hann telji að eiginfjárstaða Play verði að ári liðnu segir Einar að það sé ómögulegt að áætla.
„Við eigum ekki von á að það breytist mjög mikið á milli ára. Breytingarnar á rekstrarlíkaninu munu þó skila árangri. Við gerum þó ráð fyrir að fyrsti fjórðungur þessa árs verði mjög þungur en munum sjá fram á bættan rekstur með vorinu. Ég býst því við að fjárhagsstaða félagsins verði sterk að ári liðnu,“ segir Einar.
Spurður út í möguleikann á aukningu hlutafjár, sem nefndur er í uppgjörstilkynningu, segir Einar að þeim finnist ekki þörf á því eins og staðan er núna.
„Ef áætlanir okkar ganga sæmilega eftir þá mun það ekki þurfa. Félagið hefur enn sem komið er ekki ráðið neinn til slíks verks. Við þekkjum þó þennan geira og vitum að það getur blásið um svo við fylgjumst vel með,“ segir Einar.
Spurður með hvaða hætti hlutafé yrði aukið ef til þess kæmi, segir Einar ómögulegt að segja til um það.
„Það gæti verið gert annaðhvort í gegnum móðurfélagið eða dótturfélag okkar á Möltu. Báðir möguleikarnir hafa verið nefndir af áhugasömum aðilum en það eru engar samningaviðræður í gangi eins og stendur,“ segir Einar.
Í uppgjörstilkynningu kemur fram að á árinu 2025 verður leitast við að draga úr kostnaði og þegar hefur verið gripið til aðgerða sem stefnt er á að skili 15 – 20% hagræðingu í yfirbyggingu, m.a. með minna leiðakerfi og færri tækninýjungum. Þá mun Play hafa undir höndum betri samninga við birgja og mun starfsemi í Vilníus einnig lækka kostnað.
Búist er við að fjárhagsniðurstaða fyrsta ársfjórðungs verði svipuð og í fyrra, þrátt fyrir að páskarnir séu að þessu sinni í öðrum ársfjórðungi. Reiknað er með betri rekstrarniðurstöðu á öllum öðrum ársfjórðungum. „Við viljum bara ítreka að þau áform sem við kynntum síðasta haust um breytingu á okkar rekstrarlíkani eru öll að ganga eftir. Erfiðustu leiðirnar okkar hafa verið skornar úr kerfinu, við erum að auka framboð okkar á þessa sólarlandastaði sem hafa gengið vel og loks er búið að finna verkefni fyrir þær vélar sem við höfum ekki not fyrir í okkar rekstri, með mjög arðbærum hætti.“
Spurður út í hvort frekari hagræðingaraðgerðir séu fram undan, segir Einar að búið sé að framkvæma stóran hluta af þeim.
„Við höfum unnið mikið að tæknilausnum og þurfum því ekki eins mikið af fólki. Við höfum einnig verið að flytja störfin frá Íslandi til Litháen og höfum verið að þrýsta á birgja okkar. En að mestu leyti sjáum við að frá byrjun þessa árs hefur kostnaðurinn verið að minnka. Við ætlum þó ekki að láta staðar numið og stefnum á að lækka hann enn frekar,“ segir Einar.
Play hefur að undanförnu auglýst afslætti af ferðum með félaginu allt að ár fram í tímann. Spurður hver sé hvatinn á bak við þá ákvörðun að bjóða upp á afslætti svo langt fram í tímann, segir Einar að flugfélög víða bjóði upp á slíkt.
„Við bjóðum oft upp á tilboð en einkum er um að ræða ferðir sem eru ekki á eftirsóttasta tíma,“ segir Einar.
Greinina í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.