Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Fyrir langalöngu sat ég nokkur námskeið í hagsögu við háskóla í Búenos Aíres. Þar var mér kennt að verndarstefna hefði eyðilagt argentínska hagkerfið en hafði aftur á móti reynst nokkuð vel í Brasilíu.
Brasilía fór þá leið að leggja mjög háa tolla á vörur á borð við bifreiðar og heimilistæki til að þvinga alþjóðleg stórfyrirtæki til að reisa verksmiðjur sínar í landinu. Þetta gat Brasilía gert í krafti stærðar sinnar en í þessu eina landi býr tæpur helmingur allra íbúa Suður-Ameríku og ekki flókið reikningsdæmi fyrir bíla- og þvottavélaframleiðendur að fá það út að betra væri að opna verksmiðjur í Brasilíu en að láta keppinautana sitja eina að þessum 200 milljóna manna markaði.
Viðskiptaumhverfið er ekkert sérstaklega gott í Brasilíu, regluverkið flókið og skattarnir íþyngjandi, en tollastefnan virkaði eins og til stóð og framleiðir Brasilía ökutæki og raftæki fyrir sig og alla álfuna.
Eins og lesendur vita er brasilíska hagkerfið samt alls ekki á grænni grein í dag og ekki hægt að segja að verndartollarnir hafi fleytt landinu langt. Landsframleiðsla á mann tók reyndar mikið stökk frá 2002 til 2012 en hefur verið á niðurleið síðan þá og eru Brasilíumenn í dag á svipuðum stað og þeir voru árið 2008. Þó að það hendi stundum að inngrip geri meira gagn en ógagn, þá virðist það gilda nú sem endranær að besta leiðin til að tryggja langvarandi hagvöxt og hagsæld sé að hafa hagkerfin sem frjálsust.
Donald Trump hefur tekist að hrista upp í hlutunum með nýrri tollastefnu fyrir Bandaríkin. Reyndar virðist stefna Trumps svolítið á reiki því fyrst talaði hann á þeim nótum að leggja háa tolla á innflutning til að knýja framleiðendur til að reisa verksmiðjur sínar í Bandaríkjunum – svipað og við sáum í Brasilíu – en nú vill hann gera það að reglu að tollar á vörur sem koma til Bandaríkjanna séu jafnháir og tollar útflutningslandsins á bandarískan varning. Virðist það ósköp sanngjarnt og eðlilegt fyrirkomulag.
Sitt sýnist hverjum um þessar hugmyndir Trumps en samkvæmt fræðunum eru tollar skaðlegir fyrir bæði inn- og útflutningslandið. Tollar gera aðföng dýrari fyrir innlenda framleiðendur og minnka því samkeppnishæfni þeirra, og þegar tollar eru notaðir til að vernda eða búa til ný störf í ákveðnum kimum atvinnulífsins þá er tjón hagkerfisins alls margfalt á við þau verðmæti sem vernduðu störfin skapa.
Hagfræðingar hafa t.d. haft nægan tíma til að mæla áhrif ál- og stáltolla Trumps frá 2018 og fengu þeir það út að inngripin á sínum tíma bjuggu til 1.000 ný störf í stálframleiðslu en leiddu líka til þess að 75.000 ný störf urðu ekki til hjá bandarískum fyrirtækjum sem þurfa að nota stál í framleiðslu sína. Fyrir hvert starf í stáliðnaðinum sem tollarnir vernda tapar bandaríska hagkerfið 900.000 dölum ár hvert, vegna hærra stálverðs, en það er á við þrettánföld árslaun dæmigerðs starfsmanns stálverksmiðju.
Á einum stað var það þó reiknað út að mögulega gæti kapallinn gengið upp hjá Trump, a.m.k. hvað bandaríska hagsmuni varðar. Bandaríska hagkerfið er nefnilega svo risastórt að erlendir framleiðendur gætu verið tilneyddir að taka á sig megnið af kostnaðinum við tollana til að tapa ekki markaðshlutdeild. Tollarnir gætu jafnframt leitt til styrkingar dalsins, svo að áhrif tollanna kæmu ekki endilega fram í hærri verðmiða á vörum og aðföngum innanlands, og ríkissjóður fengi eftir sem áður miklar viðbótartekjur af tollunum. Sterkari dalur kæmi sér reyndar illa fyrir bandarísk útflutningsfyrirtæki en á móti kemur að bandaríska hagkerfið er ekkert sérstaklega háð útflutningi og mynda útflutningstekjur frekar lítinn skerf af landsframleiðslu Bandaríkjanna.
Trump hefur gert heimsbyggðinni einfalt tilboð: ef þið leggið ekki tolla á okkur, þá leggjum við ekki tolla á ykkur. Skyldi maður halda að flestar þjóðir ættu að geta gengið að þessum kjörum og græða þá allir, en raunin er auðvitað að víða er tollum beitt til að vernda alls konar vel tengda hópa.
Sást þetta vel þegar leiðtogar G7-ríkjanna sátu fyrir Trump í Quebec árið 2018 og skömmuðu hann fyrir nýju ál- og stáltollana, en eins og ég rifjaði upp í pistli í nóvember lagði Trump þá til að afnema í staðinn alla tolla, hindranir og niðurgreiðslur af öllu tagi, og breyttist þá hljóðið í Merkel, Macron og öllum hinum. Því hvað er Evrópusambandið annað en tollamúrabandalag til að vernda framleiðendur í álfunni gegn saumastofum á Indlandi og bílaverksmiðjum í Kína?
Það flækir ögn málin að Trump leggur virðisaukaskatt að jöfnu við tolla. Það er vandi sem hægt er að leysa, t.d. með því að skipta yfir í „söluskatt“ á bandaríska vísu en bæði virðisauka- og söluskattur hafa sína kosti og galla þó að lokaútkoman sé n.v. sú sama fyrir neytendur. Um er að ræða mikilvægan skattstofn, og á Íslandi mynda t.d. skattar á vöru og þjónustu tæpan þriðjung af öllum tekjum ríkissjóðs, svo varla er hægt að gefa þessa skatta upp á bátinn. Þar að auki þykja neysluskattar í hópi þeirra skatta sem hafa hvað minnst neikvæð áhrif á hagvöxt. Má það fljóta með að í Bandaríkjunum er söluskatturinn hæstur í Kaliforníu, eða 7,25%, sem er auðvitað algjör hátíð í samanburði við það sem íslenskir neytendur eru látnir þola.
Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.